Er að fæðast siðbót?

Ég er sammála Jóni Steinari sem skrifaði athugasemd hjá mér í gær að það þarf að aðskilja þing og framkvæmdavald.  Það er þó ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki heyra á slíkt minnst en þeir eru  búnir að byggja upp í langan tíma mikið flokksræði, svo mikið að það nálgast flokksræðið í gömlu Sovétríkjunum.  Og siðbót er orð sem hið spillta íhald skilur ekki.

Ég var aftur á móti að vona að Samfylkingarþingmennirnir og ráðherrar væru örlítið upplýstari og nær venjulegu fólki en íhaldsliðið.  Og ég ætla að halda áfram að vona.  Þó svo að félagi Ingibjörg Sólrún hafi talað í kvöld eins og hún ætlaði að hana á íhaldinu eins og hundur á roði  fram á vor þá trúi ég ekki öðru en að þingmenn og aðrir ráðherrar Samfylkingar hafi döngun í sér til að losa okkur úr þessari vonlausu stöðu, að Davíð Oddsson og Baldur Guðlaugsson sitji áfram ábyrgðarlausir í sínum mjúku flauelsstólum í skjóli Samfylkingarinnar.

Mín trú er sú að eftir að hafa heyrt viðtöl við Steinunni Valdísi og Helga Hjörvar í kvöld að dagar íhaldsspillingarinnar í stjórnarráðinu séu brátt taldir.  Það er auðvitað með ólíkindum hversu þolinmóð þau og fleiri innan þingflokksins hafa verið gagnvart íhaldinu.  Og ekki trúi ég að ráðherrum Samfylkingar líði betur í þessu samstarfi við frekju og dekurliðið.  En þau fá prik fyrir þolinmæði og aumingjagæsku.

En siðbótin verður að fara fram hið fyrsta og ekki bara í stjórnarráðinu, þinginu, meðal embættismanna eða í ríkisbönkunum.  Nei við verðum að hreinsa til í stjórnum lífeyrissjóðanna, þar sem svokallaðir verkalýðsforingjar hafa misfarið með lífeyri Íslendinga og látið atvinnurekendum eftir að vasast með þeim í stjórnum lífeyrissjóðanna.  Við verðum að henda framkvæmdastjórum lífeyrissjóðana á dyr.  Þetta ofurlaunaða fólk hefur tapað milljörðum af því fé sem þeim var treyst fyrir og ætlast til að fá að sitja áfram. 

Meira um það síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Sammála, þetta er grundvallaratriði ef takast á að höggva að rót þess vanda sem við búum við í dag.

Þingræðið er orðið okkur fjötur um fót, löggjafinn og framkvæmdavaldið skulu, samkvæmt lögum, vera aðskilin. En svo er augljóslega ekki þegar meirihluti á þingi þýðir sjálfkrafa meirihluti í ríkisstjórn....þá er aukinheldur komin greið leið inn í ríkisstjórn fyrir flokkahagsmuni og lögleiddu siðleysi einkavinafélaga.

Haraldur Davíðsson, 23.1.2009 kl. 02:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband