Björgvin G setur siðbótina í gang á ný.

Það kom svo sem ekki á óvart að Björgvin G. Sigurðsson skyldi segja af sér í morgun.  Það helsta sem kom á óvart var hversu seint hann grípur til afsagnar.  Ég var reyndar þeirrar skoðunnar þegar rætt var um hrókeringar í ríkisstjórninni að Samfylkingin hefði ekki átt að skipta Björgvin og Þórunni út heldur hefði Ingibjörg Sólrún átt að víkja vegna ótrúlegrar pólitískrar vanhæfni í þessari ríkisstjórn - frá upphafi. 

Hvað um það Björgvin G sagði af sér í morgun og er maður að meiri, en hann gerði meira.  Hann hóf siðbótina á ný, siðbótina sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hóf þegar hún sagði af sér úr bankaráði Seðlabankans í október sl.  Vissulega hefði siðbótin mátt halda áfram frá þeim tímapunkti, en góðvild, þolinmæði og trú á "heildindi" og "samstarfsvilja" íhaldsins virðast hafa truflað samfylkingarfólk í þeirri tiltekt.  En nú er siðbótin hafin á ný, loksins, með því að setja af forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins.  Tónninn sem Björgvin G sló þegar hann tilkynnti afsögn sína í morgun var líka sá að siðbótin ætti að halda áfram.  Hann viðurkenndi að ríkisstjórninni hefði mistekist að halda tengslum og trúverðugleika.  Hann nánast viðurkenndi að allar raunhæfar aðgerðir til að bæta efnahagsástandið á Íslandi strönduðu á einu atriði - "samstarfsóhæfni" íhaldsins.  Enda hefur komið í ljós þegar fréttamiðlar ná sambandi við stuttbuxnadeild íhaldsins að þar skilur enginn neitt í neinu.  Á þeim bænum spyr fólk bara " hvað er verið að rugga þjóðarskútunni núna þegar við þurfum á styrkri stjórn að halda?"  Þar glittir í velþekkt syndrome frá fjórða áratug síðustu aldar, ekki nema von, Hannes Hólmsteinn Gissurarson einkavinur og hugmyndafræðingur fyrrverandi forsætisráðherra hefur kennt þessu fólki í stjórnmálaskóla sjálfstæðisflokksins.

Á morgun, mánudag, væri óskaplega notalegt að sjá alla bankastjórn Seðlabankans rekna frá störfum með þeirri skömm sem hæfði og stjórn sama banka setta af.  Í framhaldi af því á auðvitað að gefa fjármálaráðherra kost á því að segja af sér - setja hann af ef ekki vill betur - og í framhaldi af því reka Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu.  Miðað við fréttir af innherjaviðskiptum hans væri líklega rétt að stinga því að efnahagsbrotadeildinni að setja Baldur í gæsluvarðhald meðan viðskipti hans með Landsbankahlutabréfin væru skoðuð til hlýtar.  Það væri kannski grátbroslegt að sjá efnahagsbrotadeildina gera húsleit í fjármálaráðuneytinu, á skrifstofu ráðuneytisstjóra, en líklega væri það lýsandi dæmi um spillinguna sem þrífst meðal embættismanna sem ráðnir hafa verið vegna flokkskírteina sinna í sjálfstæðisflokknum og framsóknarflokknum undanfarna tvo áratugi.  Í það minnsta njóta téðir embættismenn mjög takmarkaðrar virðingar í samfélaginu vegna þessara augljósu tengsla þeirra við b og d.  Og meðan ekki er hreinsað til meðal þessara embættismanna og gegnsæju ráðningarferli í æðstu embætti landsins komið á, sitja hinir embættismennirnir sem saklausir eru af spillingu og eru ekki ofurseldir íhaldinu og framsókn undir dylgjum sem þeir eiga ekki skilið.

Hvað um það, Björgvin G hóf siðbótina á ný í dag og á þakkir skildar fyrir það.  Hann ýtti á undan sér vanhæfri stjórn FME og vanhæfum forstjóra.  Vanhæfu fólki vegna þess að þetta var fólkið sem hafði gefið bönkunum heilbrigðisvottorð opinberlega og þanprófað bankakerfið og töldu ekki ástæðu til að grípa inn í.  Kannski skorti lagaheimildir til að gera eitthvað í málunum og líklega var hroki og græðgi fjármálakerfisins af þeim toga að regluverkið leyfði ekki þessu fólki hjá FME að gera nokkurn skapaðan hlut nema að eiga á hættu stöðugar málsóknir frá bankafólkinu fífldjarfa.  En eftir á að hyggja brugðust þau trausti samfélagsins og því rétt að setja stjórn og forstjóra FME af. 

Björgvin minn kæri, þakka þér fyrir heildindin.  LIFI BYLTINGIN


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband