Guðfríður með geislabauginn

Ég hef satt að segja ákveðnar áhyggjur af því þegar þingflokksformaður VG fer viljandi með staðlausa stafi í samtölum sínum við blaðamenn mbl og í silfri egils.  Sú endemis vitleysa að Ögmundur og hinir ráðherrarnir hafi gert sér leik að því að halda henni frá Icesave í sumar er orðin þreytandi.  Jafn þreytandi og aum og þetta sífr hennar um að Ömmi sé svo staðfastur og heiðarlegur að hann geti ekki, frekar en hún, unnið með þessu óheiðarlega liði sem situr í ríkisstjórninni.  Þetta bölvaða bull er ekki pólitík, þetta er aumingjagangur fólks sem ekki ætlar að axla ábyrgð á því að koma landinu upp úr því bulli sem íhald og framsókn sökktu okkur í.

Möguleikarnir á afsögn Ögmundar eru tveir:  Annars vegar hefur hann ekki treyst sér til að vera hluti af ríkisstjórninni sem þarf óumflýjanlega að skera töluvert niður í ríkisútgjöldum, hann er jú ennþá formaður BSRB, eða hann er svona mikill þvergirðingur í samstarfi að hann getur ekki unað forystu annarra, svo sem forsætisráðherra.  Ögmundar vegna vona ég að það sé síðarnefndi möguleikinn.

Þetta Icesave blæti þeirra Ögmundar, Guðfríðar Lilju og Lilju Mósesdóttur er á góðri leið með að koma íslensku þjóðinni í verra klandur en áður.  Þau virðast ekki skilja hversu mikilvægt er að koma þessu máli afturfyrir í atburðarrásinni til að komast eitthvað áfram.  Það er flestu öðru skynsömu fólki ljóst að allir íslendingar eru mjög á móti því að þurfa að borga Icesave, en samningar þar um við Breta og Hollendinga gætu lágmarkað skaðann sem við verðum fyrir.  Og það er einmitt málið að lágmarka skaðann og koma okkur sem fyrst í þá stöðu að ná til baka stöðu okkar.  Koma okkur sem fyrst í þá stöðu meðal þjóða að Bretar og Hollendingar neyðist til að taka mark á okkur.  Miðað við framgöngu Guðfríðar Lilju verður lítið úr því vegna þess að hún og Ögmundur félagi hennar hafa ákveðið að koma íslendingum illa á alþjóðavettvangi.  Þau verða þá að vera tilbúin að taka þeirri gagnrýni án þess að kenna öðrum um.  Nema þau vilji vera naðran sem íhaldið og framsókn vantar til að komast aftur til valda - það væri reyndar tragikómískt ef þessi þrjú yrðu til þess.  En kannski eigum við ekki annað skilið sem þjóð.


mbl.is Samþykktu Icesave blindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband