Niðurskurður á fjárframlögum til SÁÁ

Hef verið hugsi yfir þeim hugmyndum heilbrigðisráðuneytisins að skera fjárframlög til SÁÁ niður um 70 til 100 milljónir króna á fjárlögum 2010.  Sérstaklega þar sem með því er gengið gegn undirrituðum þjónustusamningum sem sjúkrasamlag ríkisins gerði við SÁÁ á síðasta ári og í byrjun þessa árs. 

Þessi tilhneiging ríkisins til að sniðganga samninga sem það hefur gert eru einfaldlega svik - svik sem engum öðrum líðst.  Þessi vinnubrögð ríkisins hafa blómstrað í spillingu undanfarinna 15 ára og á stundum finnst manni ríkið ótrúlega þróað í þessari óheiðarlegu stjórnsýslu. 

Tökum dæmi til samanburðar.  Síðast liðið haust var okkur ljóst hjá SÁÁ að þrengingar voru framundan hjá okkur íslendingum.  Við gerðum okkur ljóst að allir þyrftu að leggjast á eitt til að við gætum veitt nauðsynlega þjónustu fyrir alkóhólista og aðstandendur þeirra.  Þess vegna var gripið til mjög sársaukafullra sparnaðaraðgerða strax sl vetur.  Við tókum á okkur 3,4% niðurskurð á fjárframlögum ríkisins auk þess sem stórir styrktaraðilar SÁÁ höfðu eðlilega hætt stuðningi sínum þar sem þeir voru ýmist komnir í þrot eða í greiðslustöðvun.  Þetta þýddi að mörgum vinnufélögum okkar og vinum var sagt upp störfum hjá SÁÁ.  Þetta gerðum við í góðri trú um að ríkið stæði að öðru leyti við samninga sem það hafði sjálft gert í gegnum sjúkrasamlagið sitt.  Við stóðum í þeirri trú að sömu lög og reglur giltu um ríkið og um okkur sem þegna Íslands, að ríkið þyrfti að standa við gerða samninga eins og við.

Á sama tíma virðist Landspítalinn/Heilbrigðisráðuneytið lítið sem ekkert gera til að bregðast við fyrirsjáanlegum vanda í fjármögnun spítalans enda kannski eðlilegt þar sem ráðuneytið fer fram á aukafjárveitingu á aukafjárlögum nú í haust til að loka gatinu.  Þetta eru viðteknar venjur á sama tíma og ríkið virðist telja sig geta gengið að sjálfsaflafé og eignum SÁÁ sem sjálfssögðum hlut.

Gleymum því ekki að í áraraðir hefur SÁÁ greitt tugi, og jafnvel yfir eitt hundrað milljónir, árlega með lögboðinni heilbrigðisþjónustu fyrir fíknisjúklinga umfram þessar hundrað milljónir sem til stendur að skera niður núna.   

Það er þess vegna nauðsynlegt að allir velunnarar SÁÁ taki höndum saman og sendi ríkinu góðar kveðjur og óski eftir leiðréttingu á þessari stjórnsýslu gagnvart SÁÁ.  Það er nefninlega ótrúlega aumt trikk hjá ríkinu að ráðast að fíknisjúklingum.  Það eru fáir aðrir en SÁÁ sem taka málstað þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Tómasson

Sæll vertu Hörður og gaman að sjá þig aftur á þessum vettvangi.

Burt séð frá þeim leiða kæk stjórnvalda að standa bara við þá samninga sem þeim hentar hverju sinni, þá held ég að í stjórnsýslunni ( þ.e. fjárveitinga og framkvæmdavaldi ) þá séu fíklar ekki mjög hátt skrifaður hópur. Við erum sennilega á pari við aldraða, öryrkja og þroskahefta, hjá hverjum ráðamenn virðast endalaust geta fundið matarholur til að kroppa í ef harðnar á dalnum.

Sá skilningur og stuðningur sem lesa má í skrifum ráðamanna á góðum stundum er fljótur að hverfa þegar komið er til baka í verndað og léttvínsmengað umhverfi alþingis eða ráðuneytisins. Þar bíða ótal miklu brýnni mál úrlausnar eins og að afgreiða 100 milljónir fyrir bókamessu í Frankfurt eða redda pening fyrir kórtónleika heima í héraði.

Bestu kveðjur

Hjalti Tómasson, 30.10.2009 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband