17.12.2009 | 10:27
Grjótið og glerhúsið
Verð að viðurkenna að ég hef haldið mér til hlés undanfarið hér á blogginu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mér hefur ofboðið hversu rætinn og illgjarn málflutningur ýmissa bloggara í hinum ýmsu blogggáttum hefur verið. Var jafnvel að hugsa um að eyða þessari bloggsíðu minni. Lít reyndar svo á að þeir sem harðast ganga fram í að moka skít yfir björgunarsveitina eru þeir sem mesta sök eiga á ástandinu og þeirra leiguþý.
Kíkti á blogg Sigurjóns Þórðarsonar og leyfi mér að birta hér færsluna hans og athugasemd sem ég gerði. Hann skrfar:
"Mun Ármann Þorvaldsson skrifa sögu Samfylkingarinnar?
Ekki er ég viss um að ég eigi eftir að lesa bók Ármanns Þorvaldssonar, Ævintýraeyjuna, enda hef ég ekki lyst á að koma við bókina, hvað þá meira. Ekki ráða þar eingöngu fordómar heldur hef ég ekki komist hjá því að kynnast höfundi og efni bókarinnar í gegnum fjölmörg viðtöl, m.a. á Útvarpi Sögu.
Höfundur bókarinnar talar um efnahagsglæpina sem hann framdi gegn Íslendingum af þvílíkri léttúð að hann virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir ábyrgð sinni í því að koma órorði á þjóðina og koma henni á vonarvöl. Hann hljómar svona nett eins og fjöldamorðingi sem segir að glæpirnir hafi verið áhugaverðir og skemmtilegir á sínum tíma sem nú er liðinn og komin eru önnur verkefni inn á sitt borð, m.a. þau að sinna ritstörfum og öðru skemmtilegu.
Í ljósi furðulegra samninga Samfylkingarinnar við þá sem ollu hruninu er alls ekki útilokað og jafnvel talsverðar líkur til þess að sagnfræðingurinn Ármann Þorvaldsson leggi fyrir sig ritstörf og skrifi sögu Samfylkingarinnar. Á þeim bænum er víst nokk sama hvaðan gott kemur."
Og ég svaraði honum af bragði:
"
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Facebook
Sæll minn kæri Sigurjón
Er þetta ekki dálítið eins og að hengja bakara fyrir smið þegar þú og fleiri hafa ekki betra pólitískt minni en það að halda að Samfylkingin sé upphaf og endir allrar spillingar í landinu og þar með aðalhrunvaldurinn?
Ekki veit ég til þess að Ármann Þorvaldsson sé sérstakur velunnari Samfylkingarinnar og verð að viðurkenna að ég hef ekki séð hann þar á félagsfundum. Get reyndar tekið undir með þér að þessi bókarskrif hans eru frekar undarleg, en hvað um það, honum hlýtur að vera frjálst að skrifa um málin frá sinni hlið. Ég gæti jafnvel látið mér detta í hug að lesa bókina hans, þó ekki væri nema til að fá innsýn inn í hugarheim þess fólks sem svo illa hélt á málum innan íslenska bankakerfisins. En til að fá skýringar á því hvers vegna menn höguðu sér eins og þeir gerðu þurfa aðrir en gerendurnir að greina, meta og skrifa um.
En nú verðurðu líka að upplýsa mig - hvaða furðulegu samningar hafa verið gerðir af Samfylkingunni við þá sem hruninu ollu?
Og þú mátt þá líka upplýsa mig hvers vegna leggja þarf djúpstæða pólítíska og persónulega merkingu í það þó einhver spyrji svona augljósrar spurningar "er ekki sama hvaðan gott kemur?". Svari hver fyrir sig, en ég segi nei það er ekki sama. En það þarf ekki að leggja neina sérstaka merkingu í það, hvorki til að skýra aðgerðir annarra einstaklinga, Samfylkingarinnar né fjölskyldu minnar.
Kær kveðja til þín, sjáumst í sjónum
Hörður J. Oddfríðarson, félagi í Samfylkingunni."