14.3.2009 | 03:04
Mistök eða landlægt óréttlæti?
Heyrði áðan fréttir um að bönkum og öðrum vörsluaðilum sérstaks lífeyrissparnaðar væri heimilt að taka allt að eitt prósent umsýslugjald af þessari milljón sem venjulegt fólk getur nú tímabundið tekið út fyrir tímann.
Ég ætlaði ekki að trúa þessu - að félagshyggjuflokkarnir VG og Samfylking með þau Jóhönnu Sigurðar og Steingrím J. hefðu leitt slíka heimild til þjófnaðar í lög, en verð víst að trúa því. Gott og vel það er þá eins gott að Samfylkingin nái að endurnýja mannskapinn sem á að setjast á þing fyrir hönd flokksins í vor því þeir sem hafa lagt í þennan viðbótarlífeyrissparnað þurfa ekki aðeins að glíma við neikvæða ávöxtun á þessu fé heldur þarf þetta fólk einnig að greiða þjónustu bankana fullu verði. Og þeir sem hafa lagt þetta fé inn til lífeyrissjóðanna horfa á gífurlega sóun þeirra sem þar fara með völd.
Það er ekki hægt að afsaka þessa lagasetningu með því að kalla þetta mistök illa uppalinna embættismanna fjármálaráðuneytis við frumvarpsgerð, heldur virðist þetta vera landlægt óréttlæti sem núverandi fjármála- og forsætisráðherrar eru orðnir samdauna. Það vantar greinilega fólk á þing sem getur leiðbeint þeim í þessum efnum.
Ég er í boði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hér vantar eitthvað mikið upp á. Það er alveg brennt fyrir að fjármálastofnanir þessa lands séu tilbúnar til að axla sinn hluta byrðanna við að létta fólki lífið. Sennilega þurfa hreinsanir í bönkunum að ná enn neðar en til þessa.
Skömm sé þeim fyrirtækjum sem ekki sjá ábyrgð sína í núverandi aðstæðum og leggja sitt af mörkum. Af okkur er ekkert lengur að hafa, þökk sé þeim.
Hjalti Tómasson, 15.3.2009 kl. 10:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.