10.3.2009 | 22:50
Um forystumál Samfylkingar.
Leyfi mér að skeyta við þessa færslu slóð inn á heimasíðu Péturs vinar míns Tyrfingssonar hvar hann gerir að umræðuefni forystumál Samfylkingarinnar. Gæti ekki komið þessu skýrar á framfæri og lýsi mig algerlega sammála hugmyndinni.
http://tyrfingsson.wordpress.com/
10.3.2009 | 22:38
Frábært karlakvöld
Ég hef lítið gefið mér tíma til að skrifa en í gærkvöldi áttum við frábært karlakvöld. Við boðuðum fólk til okkar í sal SÁÁ, vorum fimm saman, Mörður Árnason, Pétur Tyrfingsson, Dofri Hermannsson, Hörður J. Oddfríðarson og Helgi Hörvar. Við fengum Sigrúnu Elsu Smáradóttur til að stýra umræðum og taka tímann og mannskapurinn sem mætti fékk líflegar umræður með kleinunum og kaffinu.
Umræðurnar voru um allt milli himins og jarðar Evópumál, jafnréttismál, efnahagsmál, atvinnumál, heilbrigðismál og fleiri sígild karlamál. Skemmtilegt kvöld með skemmtilegu fólki af báðum kynjum.
9.3.2009 | 00:19
Ingibjörg hættir! Jóhanna tekur við?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er hætt afskiptum af stjórnmálum í bili að minnsta kosti vegna heilsubrests. Það eru ekki góðar fréttir. Ég var að vísu ósáttur við blaðamannafund þeirra Ingibjargar og Jóhönnu fyrir rúmri viku en það er ekki gott þegar samherji hverfur frá í miðju kafi vegna vanheilsu. Ég vona að Ingibjörg nái heilsu sinni sem fyrst og hlakka til að sjá hana aftur í stjórnmálastarfi.
Þá kemur auðvitað upp spurningin hver á að taka við. Það liggur fyrir að við í Samfylkingunni höfum gengið að því sem vísu að Jóhanna Sigurðardóttir færi fram sem forsætisráðherraefni flokksins. Þess vegna finnst mörgum það nánast formsatriði að Jóhanna taki við formennsku í flokknum við þessar aðstæður. Mér finnst það einnig. Þrátt fyrir það að hún hafi þvertekið fyrir það í dag vona ég að hún endurskoði afstöðu sína og breyti svari sínu.
7.3.2009 | 16:11
Hvaða erindi áttu inn á þing?
Þetta var spurning sem fékk um daginn.
Svarið er til að breyta vinnulagi á þinginu, til að taka á í heilbrigðismálum og ekki síst til að taka á í atvinnu og efnahagsmálum.
Ég er á því að það eigi að setja þak á verðtryggingu lána til þess að fólkið í landinu sjái fram úr skuldum sínum.
Ég er á því að taka upp viðræður við Evrópusambandið, því það tryggir okkur efnahagslega í framtíðinni gegn svona algeru hruni eins og við stöndum frammi fyrir nú. Við þurfum líka að vera með gjaldmiðil sem ekki breytist reglulega í efnahagslega hengingaról.
Stóriðjan er ekki eini raunhæfi kosturinn í atvinnumálum, fleiri og smærri fyrirtæki eru oft vænlegri kostur og umhverfisvænni.
Í heilbrigðismálum þurfum við að þora að taka upp umræðu um hvaða þjónustu við viljum að samfélagið fjármagni að fullu. Við eigum að tryggja að heilbrigðiskerfið okkar sé fyrir alla íbúa landsins óháð efnahag. Þarna þarf heilbrigðisstarfsfólk að koma með í þessa umræðu - þar liggur og þar liggur getan.
Alþingi þarf að standa í lappirnar gagnvart framkvæmdavaldinu og ráðherrar eiga ekki að vera þingmenn. Forseti þingsins á að standa með þinginu gegn ráðherraræðinu. Við verðum að eiga kost á því að senda einstök mál í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að eiga hættu á meiriháttar stjórnmálakreppu í hvert skipti.
6.3.2009 | 14:57
Karlakvintett prófkjörsframbjóðenda heldur uppi fjörinu
Á mánudagskvöldið ætlar fallegur karlakvintett að halda alvarlegan stjórnmálafund í VON húsi SÁÁ í Efstaleiti 7 Reykjavík.
Það eru allir velkomnir konur og karlar, ungir og aldnir, mikið menntaðir og minna menntaðir osfrv.
Kaffi og kleinurí boði.
Við ræðum karlamál í víðu samhengi, Efnahagsmál, heilbrigðismál, menntamál, uppeldismál, atvinnumál, viðskiptamál, skattamál, umhverfismál, jafnréttismál, skólamál, samböngumál, líðræðismál félags- og tryggingamál, utanríkismál, menningarmál, kjaramál, húsnæðismál, áfengismál, þingmál og önnur mál.
Karlakvintettinn miðast við margfeldi aldurs, þyngdar og andlegs atgerfis.
Þetta eru: Pétur Tyrfingsson, Mörður Árnason, Helgi Hjörvar, Dofri Hermannsson og Höröur Oddfríðarson.
Fyrirspurnir og og athugasemdir velkomnar frá fundargestum. Aðrir frambjóðendur tala eftir efnum og ástæðum. Framhaldsfundir í reykfylltum bakherbergjum.
Slagsmál bönnuð, skynsemi áskilin, tilfinningar heimilar.
Munið hina röku hlýju búningsklefans. Komið og njótið góðrar kvöldstundar í faðmi karla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2009 | 09:58
Bankaleyndin óþörf
Á tímum þar sem viðkvæðið er að allt eigi að vera upp á borðum og ekki eigi að persónugera neitt liggur það í augum uppi að bankaleynd er óþörf. Enda höfum við íslendingar ekkert að fela.
Þeir sem skulda upp fyrir haus vegna hrunsins mæta skilningi, þeir sem standa með sitt á þurru mæta skilningi og þeir sem eiga eitthvað fé eða eignir þurfa að gera grein fyrir því hvernig þeir eignuðust það og hvar þeir geyma það.
Það er kannski helst það síðasttalda sem gæti verið viðkvæmt. En nauðsynlegt að fá það fram.
Bankaleynd verður afnumin með öllu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.3.2009 | 11:50
Að sjálfsögðu
Að sjálfsögðu vill fólk stjórn sem hefur hagsmuni almennings að leiðarljósi, stjórn sem er tilbúin til að setja áhættusæknum einstaklingum takmarkanir þegar fjöregg þjóðarinnar er handleikið og stjórn sem þorir að framkvæma. En við þurfum líka að fá þing sem er tilbúið að vinna löggjafarvinnuna, þing sem fylgist með hvort framkvæmdavaldið er að vinna vinnuna sína.
Það ætti auðvitað ekki að þvælast fyrir því góða fólki sem fer fyrir þessum flokkum, Samfylkingu og VG, hingað og þangað um landið að lýsa yfir vilja til samstarfs fyrir kosningar.
Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2009 | 16:37
Það er svo undarlegt.......
Það er skrýtið að vera í framboði þar sem einn meðframbjóðandinn hefur í slíkum hótunum við formann flokksins og forsætisráðherra að hinn brosmildi besservisser á RÚV sér sig knúinn til að kynna þennan frambjóðanda sérstaklega í þætti hjá sér.
Það er lika skrýtið að vera í framboði þar sem tveir meðframbjóðendur velja það að hafa sérstakan blaðamannafund til að tilkynna að þessir tveir frambjóðendur hefðu ákveðið að lenda í 1. og 2. sæti í prófkjörinu.
En undarlegast er þó að fjölmiðlafólkið hoppar í þessa drullupolla með þessum þremur frambjóðendunum, okkur hinum til gleði og ánægju. Þetta sama fjölmiðlafólk er nefninlega alltaf að tala um hvað sé lítil endurnýjun í flokkunum.
3.3.2009 | 16:14
Ósvífni forstjórans
Þorgeir Eyjólfsson forstjóri LIVE (þe Lífeyrissjóðs Verslunarmanna) stendur Gunnari Páli Pálssyni formanni sjóðsins og formanni VR ekki langt að baki í siðleysi. Hann tekur um það bil tífalt hærri laun fyrir vinnu sína miðað við venjulegan sjóðsfélaga í LIVE og að auki virðist hann fá smávegis bílafríðindi. Í DV í dag svarar hann spurningu blaðamanns um bílafríðindin því að þetta sé hluti af hans starfskjörum. Það í sjálfu sér væri allt í góðu EN það tekur venjulegan sjóðfélaga í Lífeyrissjóði Verslunarmanna töluvert mörg ár að vinna fyrir þessum hluta starfskjara forstjórans.
Er ekki nær fyrir manninn að leita sér að annarri vinnu - hann ber ábyrgð á því að hafa tapað 30 milljörðum úr Lífeyrissjóðnum mínum.
25.2.2009 | 22:57
Að vera eða ekki að vera í framboði
Ég hef verið að velta því fyrir mér að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ekki það að margir hafi komið að máli við mig og sagt mér að ég væri tilvalinn kandidat í þingmennsku heldur langar mig einfaldlega að láta til mín taka og er viss um að ég er ekki síðri til þess en það ágæta fólk sem hefur skipað framboðslista Samfylkingarinnar fram að þessu.
Það er í tísku meðal frambjóðenda í prófkosningum innan flokka að lýsa því yfir að framboðinu sé ekki beint gegn öðrum sem eru í sömu erindagjörðum. Ég kann slíkri hógværð frekar illa og ætla að bjóða mig fram í 1.-8. sæti og býð mig þá þar með fram gegn öllum öðrum frambjóðendum Samfylkingarinnar í Reykjavík og þvælist um leið ekki fyrir neinum.
Þegar kemur að málefnunum sem ég vil beita mér fyrir þá þyngist róðurinn. Ég gæti auðvitað reynt að takmarka mig við það sem ég hef þokkalegt vit á þe þjónusta samfélagsins og málefni íþróttahreyfingarinnar en ég gæti líka opnað upp á gátt og sagt ég vilji veg jöfnuðar í samfélaginu sem mestan. Og auðvitað vil ég kanna sem fyrst hvernig kjör við getum fengið hjá Evrópusambandinu. En fyrst og fremst langar mig að takast á við að byggja landið okkar upp efnahagslega á ný með það í huga að einstaklingar og einstök fyrirtæki eða bankar geti ekki sett okkur í svipaða stöðu og við erum nú í.
Og úr því að ég er kominn þetta langt er rétt að tilkynna það hér og nú, ég ætla að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Og búinn að safna meðmælendum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)