Enn ein hækkun á Íslandi?

Æ það er gott til þess að vita að Olíufélögin íslensku hafa nú ástæðu til að hækka eldsneytisverð.  Hún verður örugglega notuð til hins ítrasta. 

Og enn einu sinni myndar olíuverslun á Íslandi skel um sjálfa sig.

Hafa olíufélögin staðið sig í að lækka á sama hátt og þau hafa hlaupið til að hækka?


mbl.is Olíuverð snarhækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er Ríkislögreglustjóri?

Hvernig er það eiginlega með lögregluna í þessu ágæta landi? 

Meðan vímuefnafíkinn útigangsmaður er dæmdur til fangavistar vegna samlokustuldar þá virðast "góðmennin" fá að vaða uppi. 

Nú virðist vera að koma í ljós að "góðmennin" hafa falið fé sitt víðs vegar um heiminn og þá helst þar sem erfitt er að komast að þeim.  Og Ríkislögreglustjóri og hans fólk í efnahagsbrotadeildinni hreyfir sig ansi hægt.  Þau ætla kannski að bíða eftir því mogginn upplýsi málin.  Þá bjargast vinir Ríkislögreglustjóra "góðmennin" fyrir horn og málin fyrnast, hægt verður að koma fénu betur fyrir og "góðmennin" eiga þá eitthvað til framfærslu í framtíðinni, því það verður sjálfsagt erfitt fyrir þau að fá sér venjulega heiðarlega vinnu á Íslandi eða annarsstaðar eftir allt sem á undan er gengið.

Annars hafa "góðmennin" sum hver lýst því yfir að þau vilji hjálpa Íslandi út úr fjármálakreppunni og nýta sambönd sín og þekkingu. 

Það er þá nauðsynlegt að spyrja fyrirfram hvað sú hjálp á að kosta, hversu heiðarleg samböndin eru og hvort þekking þeirra leiði okkur sem þjóð ekki út ennþá meiri ógöngur.


mbl.is Leynifélög Ólafs vistuð á Tortola
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ólafur hinn góði"

Það er yndislegt að vita til þess að Ólafur Ólafsson á ennþá laust fé í sjóðum til að styðja sálrænt við bakið á þeim sem hafa farið illa út úr efnahagshruninu.  Mér finnst Ólafur sýna mikla manngæsku og góðan hug með þessu því hann á svo mikið fé.  Hann á svo mikið fé að hann getur ennþá ferðast með þyrlunni sinni upp í Borgarfjörð í sveitasæluna, sem reyndar er reglulega trufluð af nágrönnum hans sem reyndar eru að reyna vinna fyrir sér í sveita síns andlits og hafa staðið í málaferlum við góðmennið Ólaf.

Illgjarnir hælbítar Ólafs gætu aftur á móti freistast til að spyrja hvernig honum áskotnaðist allt þetta fé og hvar það er geymt?  Hvort hluti fjárins sé í stíum á karabískum eyjum eða annars staðar geymt þar sem skattgreiðslur eru lítt eða ekki þekktar?  Hvort Ólafur tók þátt í að blása upp blöðruna sem sprakk á Íslandi svo eftirminnilega þann 6. október?  Nema að hagnaðurinn af Samskipum sé svona ríflegur. 

En gleymum því ekki að Ólafur er góðmenni því hann lánaði arabískum olíufursta, vini sínum nafnið sitt og fé til að kaupa hlut í Kaupþingi og fannst sjálfssagt að gera vini sínum þann greiða að láta viðskiptin ganga í gegn um skattaparadís.  Svona er nú Ólafur góður við þá sem minna mega sín.

Þess vegna líður mér miklu betur núna þegar Ólafur er búinn að gefa 20 milljónir til að standa undir sálrænum vandamálum almúgans á Íslandi eftir að örfáir einstaklingar hafa mergsogið land og þjóð.  Var Ólafur Ólafsson nokkuð einn af þeim???


mbl.is Aurora úthlutar 111,5 milljónum króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kardimommubærinn

Leikhúsin ættu kannski að íhuga það að taka til sýningar tragikomedíuna "Kardimommubærinn".  Í hin ýmsu hlutverk væri hægt að fá þekkt andlit sem kunna rulluna utanbókar þannig að æfingar þurfa ekki að taka langan tíma.  Kannski væri hlutverkalistinn eftirfarandi:

Bastían bæjarfógeti: Geir H. Haarde

Frú Bastían: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Soffía fræknka: Jóhanna Sigurðardóttir

Kasper: Sigurður Einarsson

Jesper: Björgúlfur Guðmundsson

Jónatan: Jón Ásgeir Jóhannesson

Ljónið: Davíð Oddsson

Kamilla litla: Katrín Jakobsdóttir

Tommi: Össur Skarphéðinsson

Tóbías gamli í turninum: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sívertsen sporvagnsstjóri: Kristján L. Möller

Bakarinn: Sturla Böðvarsson

Sörensen rakari: Steingrímur J. Sigfússon

Berg kaupmaður: Björgvin G. Sigurðsson

Ekki má gleyma Pylsugerðarmanninum en hann er auðvitað leikinn af Herði Torfa.

 

 


Ofbeldi seðlabankastjóra!

Það er þá endanlega ljóst að þeir Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason hafa ekki nokkra hugmynd um hlutverk sitt og eru ómeðvitaðir um áhrifavald seðlabankastjóra.  Sem þýðir þá líklega að þessir tveir eru líklega óhæfustu embættismenn landsins nú um stundir.  Þeir virðast ekki átta sig á því að brottför þeirra úr Seðlabanka Íslands er skilyrði fyrir þvi að traust myndist um bankann á ný og það skipti engu máli hvaða einstaklingar sátu í bankanum við hrunið - þeir stýrðu bankanum í þrot og eiga að fara NÚNA.

Vona að búsáhaldabyltingin haldi áfram fyrir framan Seðlabankann á morgun og standi þar til Jóhanna forsætisráðherra leiðir þessa herramenn út af skrifstofum bankans.

Vera þeirra Davíðs og Eiríks í Seðlabankanum er ofbeldi gagnvart þjóðinni, þeir beinlínis kosta okkar fé og hljóta að vera skaðabótaskyldir.


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarþing Samfylkingar - gott framtak

Sat á framtíðarþingi Samfylkingarinnar í dag og líkaði vel.  Ágætlega skipulagt og fjölmennt þing og maður fann gerjunina.  Þarna kom fólk úr öllum áttum - langflestir áttu það sameiginlegt að vera jafnaðarmenn en ekki endilega allir flokksbundnir í Samfylkingunni.  En þetta var upplífgandi dagpartur þar sem við lögðum línurnar fyrir landsfundinn.

Það sem var hnykkt á í öllum hópum um sem störfuðu undir merkjunum Ísland og umheimurinn var sú staðreynd að Samfylkingin er eina stjórnmálaaflið sem hefur stefnu í peningamálum Íslands framtíðarinnar.  Þetta kom reyndar fram í fleiri hópum. 

Annars sannfærðist ég endanlega um það í dag að við eigum að sækja um Evrópusambandsaðild hið fyrsta.  Hef verið frekar gagnrýninn fram að þessu en met það svo að kostirnir fyrir framtíðina séu mun meiri en gallarnir.

Ég er reyndar líka á því að við þurfum að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna okkar og skoða vel hvort við getum verið meira með öðrum í stað hefðbundins sendiráðakerfis.  Þetta er eitthvað sem á að skoða vel.


Er maðurinn orðinn sturlaður?

Sturla Böðvarsson fyrrum ráðherra og fyrrum forseti Alþingis fer mikinn í samtali við mbl.is í gær.  Ég stenst ekki mátið að klippa bút úr fréttinni og birta hér á blogginu mínu.

"„Það var ekki fyrr en ég stóð frammi fyrir mótframboði um embætti forseta Alþingis sem ég beið lægri hlut í kosningum. Þar var kosningastjóri í raun og veru enginn annar en bóndinn á Bessastöðum,“ segir Sturla.  „Bessastaðabandalagið, eins og ég kalla stuðningsmenn minnihlutastjórnarinnar, stóðst ekki prófið.“ Sturla sakaði forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, um afskipti af stjórnarmynduninni og sagði þau dæmalaus.  „Forsetinn hikaði ekki við að hafna stjórn allra flokka, skáka Sjálfstæðisflokknum burt og setja til valda Vinstri græna sem höfðu bæði leynt og ljóst staðið fyrir grjótkastinu og innrásinni í Alþingishúsið og í raun staðið fyrir valdatöku þegar Samfylkingin missti kjarkinn eftir árásina á Alþingishúsið og aðförina að fundi Samfylkingarinnar í Leikhúskjallaranum,“ sagði Sturla og bætti því við að það mætti með sanni segja að minnihlutastjórn Jóhönnu hefði komist til valda í skjóli ofbeldis.  „Það var sláandi fyrir okkur sem vorum í þinghúsinu þegar sem mest gekk á að verða þess áskynja þegar ofbeldisfólkið sem réðst á Alþingishúsið fór eftir að Vinstri grænir fengu sitt fram og höfðu sest í ráðherrastóla.“"

Ég bara spyr, hvernig dettur honum í hug að blanda Forseta Íslands í kosningar um forsetastól á Alþingi - ber hann virkilega svona litla virðingu fyrir Alþingi Íslendinga eða er þetta kannski lenskan á Alþingi menn eins og hann hafa bara fengið dúsur fyrir að halda kjafti og syngja með.

Annað sem er mjög alvarlegt í því sem Sturla segir en það er þegar hann segist líta svo á að ný ríkisstjórn hafi tekið við í skjóli ofbeldis og sakar jafnvel kollega sína á þingi um að standa fyrir því ofbeldi.  Hann kallar okkur sem mótmæltum fyrir utan þinghúsið ofbeldisfólk.  Gott og vel ég get alveg tekið því að vera kallaður ofbeldismaður fyrir það að standa fyrir utan alþingishúsið og mótmæla dæmalausu framtaksleysi og aulagang þáverandi ríkisstjórnar Íslands.  En Sturlu þáverandi forseta Alþingis hlýtur að vera ljóst að það var líka verið að mótmæla ótrúlega lyddulegri stjórn hans á þinginu og gríðarlega heimskulegri dagskrá fyrsta þingdags eftir jólafrí.

Það má auðvitað til sanns vegar færa að aðrir þingmenn stóðu ekki í lappirnar við upphaf þings 20. janúar 2009, því þeir áttu auðvitað að setja þingforsetann af með skömm þá þegar vegna augljósrar veruleikafirringar og vanhæfni en því var ekki að heilsa.  En hafi verið rétt eftir Sturlu haft hér að ofan og í mogganum þá verður að gera ráð fyrir að maðurinn sé gersamlega orðinn sturlaður og við getum þakkað pent fyrir það að óvitlaus maður situr nú á forsetastól á Alþingi.


Raunveruleikatengsl í Seðlabankanum.

Það undrar mig að þeir félagar Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson seðlabankastjórar skuli vilja sitja sem fastast í embætti sem langflestir landsmenn vilja ekki hafa þá í.  Og annar þeirra gengur svo langt að svara ekki einu sinni forsætisráðherra þegar hún óskar eftir svari við bréfi sínu.

Það liggur fyrir að traust á Seðlabanka Íslands er ekkert bæði innalands og utanlands og það er jafnljóst öllum sem vilja horfa raunsætt á stöðuna að traust á bankann og efnahagskerfið á Íslandi næst ekki nema þessir bankastjórar víki líka.  Enda tíðkast það hvergi á byggðu bóli með vott af lýðræðishefð að menn sitji í eigin haug mistaka og neiti að horfast í augu við þau.

Við getum rétt ímyndað okkur djöfulganginn í óþverragengi frjálshyggjunnar ef málum hefði verið skipað svo að Davíð Oddson væri forsætisráðherrann sem ekki er virtur svars.  Sjáið þið fyrir ykkur að Hannes Hólmsteinn, Styrmir, Kjartan og fleiri slíkir snúðar Davíðs sætu þegjandi undir því að GOÐINU ÞEIRRA væri ekki svarað af aumum seðlabankastjórum - og það kæmist jafnvel í heimsfréttirnar?

Maður gæti jafnvel séð það fyrir sér að undir slíkum kringumstæðum væri Haraldur Johannesen YfirRíkisLögregluStjóri sendur með mannskap til að hreinsa til, svona líkt og þegar hundum er sigað á rollur sem villst hafa inn á tún.

En í alvöru talað þá er það ótrúlegt að mennirnir tveir skuli vera svo lítt raunveruleikatengdir að þeir virðast ekki sjá alvarleika þaulsetunnar fyrir þjóðarbúskapinn.  Nema hreinlega að þeir þurfi á læknishjálp að halda - hver veit?


Auðvitað

Það sér það hver einasti maður að einhverjar milljónir til eða frá í bankastjóra gjaldþrota Seðlabanka er dropi í hafið við að vinna Íslandi og íslensku fjármálalífi aftur það traust sem núverandi bankastjórn sóaði með óvarlegum ummælum og ótrúlegum andsk..... klaufagangi í efnahagsstjórnun á síðustu árum.  Að maður tali nú ekki um lygina sem þessi sama bankastjórn bauð upp á á ársfundum sínum og víðar.  Fari þeir allir í fúlan pytt, þeir eiga ekki skilið krónu við starfslok, ekki frekar en aðrir stjórnendur annarra gjaldþrota banka á Íslandi.

Áfram Jóhanna forsætisráðherra.


mbl.is Seðlabankastjórar víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjálfssögðu

Að sjálfssögðu á að skipta um alla ráðuneytisstjóra á Íslandi.  Flestir þeirra eru ágætlega hæfir til starfa og gætu þess vegna sótt um stöðu á nýjan leik, en flestir þeirra njóta einskis trausts í samfélaginu vegna þess að grunur er um að þeir hafi verið ráðnir á forsendum flokkskírteina í sjálfsstæðisflokki eða framsóknarflokki.

Frábær byrjun hjá frábærum forsætisráðherra.


mbl.is Skipt um ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband