Makalaus druslugangur þingmanna

Óþverragengið sem hefur fjarstýrt Íslandi á undanförnum áratugum hefur rakað að sér fjármunum og áhrifum með fullu samþykki þings og ríkisstjórna allan tímann.  Á meðan hafa áhrif þingsins nánast horfið og endanlega varð þingið óstarfhæft þegar Sturla Böðvarsson fékk fyrirmæli um að setja ekki efnahagsumræður á dagskrá þingins þegar það kom saman eftir jólafrí.  Ekki höfðu kollegar Sturlu í forsætisnefnd þingsins þrek til að standa gegn dellunni og allir þingmenn stjórnarliðsins og flestir þingmenn stjórnarandstöðu gættu þess að láta litið sjást í sig þennan dag.  Þingmenn höfðu semsagt ekki þrek til þess að vinna vinnuna sína. 

Það verður þess vegna að spyrja þingmenn allra flokka hvers vegna þeir létu þessi vinnubrögð þróast og viðgangast.  Og þetta þarf að vera eins og í leiknum Frúin í Hamborg, það má ekki segja svart og ekki hvítt, ekki já og ekki nei.  Það þýðir að allir þingmenn td frá árinu 1995 þurfa að svar því hvers vegna þeir létu ráðherra vaða uppi og samþykktu það að þingið væri aftengt sem löggjafi og stjórnandi en varð þess í stað afgreiðsluborð fyrir frumvörp frá pólitískt ráðnum embættismönnum sem gættu fyrst og fremst hagsmuna þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem hafa fengið verðmæti þjóðarinnar gefins og farið illa með þau. 

Eitt af þessum makalausu dæmum er kvótaúthlutunin um daginn þegar kvótaliðið sem sett hefur landið á hausinn fékk 30000 tonn til viðbótar í hítina sína.  Svo var umræðunni drepið á dreif með því að gefa út hvalveiðikvóta.

Annað dæmi er auðvitað að þingmenn stjórnarflokka á hverjum tíma hafa talið sig þurfa að tala sem eitt lið.  Með því eru þingmenn auðvitað að gefa þjóð sinni langt nef og gera sjálfum sér ómögulegt að fara að þeim eiðstaf sem þeir undirrita sem þingmenn.  En við hverju er að búast þegar forseti Alþingis er algerlega ótengdur samfélaginu og settur sem hver önnur drusla af stjórnarflokkum hvers tíma sem vörður um áhrifaleysi þingsins.  Getum við búist við því að einhver núverandi þingmaður hafi bein í nefinu til standa vörð um virðingu þingsins?  Eða telja núverandi þingmenn að virðing þingsins sé mæld í því hvort karlþingmenn mæti örugglega með bindi í þingsal?

Það breytir ekki öllu úr því sem komið er hvort núverandi þingmenn og konur reyna að breyta starfsháttum þingsins næstu 83 daga en það er nauðsynlegt að núverandi þing gangi í það að ná til baka eignum þjóðarinnar sem eru nú í höndum einstaklinga og fyrirtækja sem nota þær til veðsetningar.  Með þeim hafa þessir aðilar rakað að sér fé á ábyrgð íslensku þjóðarinnar.  Þetta fé er nú horfið og enginn virðist geta gert grein fyrir því hvert það fór. Og þingmennirnir okkar hafa lítið gert til að finna þetta fé.  Þeir hafa bara treyst ríkisstjórninni og haarderað - fram að þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Því miður hefur almenningur spilað með í þessari gríðarlegu spillingu og við hin sem höfum reynt að gagnrýna verið sökuð um öfundsýki á háu stigi........

Res (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband