Er maðurinn orðinn sturlaður?

Sturla Böðvarsson fyrrum ráðherra og fyrrum forseti Alþingis fer mikinn í samtali við mbl.is í gær.  Ég stenst ekki mátið að klippa bút úr fréttinni og birta hér á blogginu mínu.

"„Það var ekki fyrr en ég stóð frammi fyrir mótframboði um embætti forseta Alþingis sem ég beið lægri hlut í kosningum. Þar var kosningastjóri í raun og veru enginn annar en bóndinn á Bessastöðum,“ segir Sturla.  „Bessastaðabandalagið, eins og ég kalla stuðningsmenn minnihlutastjórnarinnar, stóðst ekki prófið.“ Sturla sakaði forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, um afskipti af stjórnarmynduninni og sagði þau dæmalaus.  „Forsetinn hikaði ekki við að hafna stjórn allra flokka, skáka Sjálfstæðisflokknum burt og setja til valda Vinstri græna sem höfðu bæði leynt og ljóst staðið fyrir grjótkastinu og innrásinni í Alþingishúsið og í raun staðið fyrir valdatöku þegar Samfylkingin missti kjarkinn eftir árásina á Alþingishúsið og aðförina að fundi Samfylkingarinnar í Leikhúskjallaranum,“ sagði Sturla og bætti því við að það mætti með sanni segja að minnihlutastjórn Jóhönnu hefði komist til valda í skjóli ofbeldis.  „Það var sláandi fyrir okkur sem vorum í þinghúsinu þegar sem mest gekk á að verða þess áskynja þegar ofbeldisfólkið sem réðst á Alþingishúsið fór eftir að Vinstri grænir fengu sitt fram og höfðu sest í ráðherrastóla.“"

Ég bara spyr, hvernig dettur honum í hug að blanda Forseta Íslands í kosningar um forsetastól á Alþingi - ber hann virkilega svona litla virðingu fyrir Alþingi Íslendinga eða er þetta kannski lenskan á Alþingi menn eins og hann hafa bara fengið dúsur fyrir að halda kjafti og syngja með.

Annað sem er mjög alvarlegt í því sem Sturla segir en það er þegar hann segist líta svo á að ný ríkisstjórn hafi tekið við í skjóli ofbeldis og sakar jafnvel kollega sína á þingi um að standa fyrir því ofbeldi.  Hann kallar okkur sem mótmæltum fyrir utan þinghúsið ofbeldisfólk.  Gott og vel ég get alveg tekið því að vera kallaður ofbeldismaður fyrir það að standa fyrir utan alþingishúsið og mótmæla dæmalausu framtaksleysi og aulagang þáverandi ríkisstjórnar Íslands.  En Sturlu þáverandi forseta Alþingis hlýtur að vera ljóst að það var líka verið að mótmæla ótrúlega lyddulegri stjórn hans á þinginu og gríðarlega heimskulegri dagskrá fyrsta þingdags eftir jólafrí.

Það má auðvitað til sanns vegar færa að aðrir þingmenn stóðu ekki í lappirnar við upphaf þings 20. janúar 2009, því þeir áttu auðvitað að setja þingforsetann af með skömm þá þegar vegna augljósrar veruleikafirringar og vanhæfni en því var ekki að heilsa.  En hafi verið rétt eftir Sturlu haft hér að ofan og í mogganum þá verður að gera ráð fyrir að maðurinn sé gersamlega orðinn sturlaður og við getum þakkað pent fyrir það að óvitlaus maður situr nú á forsetastól á Alþingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég sá þessi orð hans í vb.is.  Ég held að farið sé fyrir honum, eins og Jóni Ásgeiri, að auðveldast sé að kenna öðrum um.

Marinó G. Njálsson, 8.2.2009 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband