Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ögmundur og framsóknarsjálfstæðishreyfingin

Vandinn með þennan norræna velferðarfána sem við Ögmundur ætluðum að draga að húni, hann sem þingmaður í stjórnarliðinu og ráðherra og ég sem eindreginn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hefur verið fótum troðinn af Ögmundi og fleirum.  Ástæðan er sú að Ögmundur, Lilja Móses ásamt framsóknarmönnum, sjálfstæðismönnum og þingmönnum hreyfingarinnar hafa leyft sér að eyða óhæfilega löngum tíma í umræður sem litlu eða engu hafa skilað.  Á meðan náðu óhæfir embættismenn hinna ýmsu ráðuneyta og þar er heilbrigðisráðuneytið ekki undanskilið, að ota fram fjárlagafrumvarpi sem ekki getur staðið undir nafni norrænnar velferðar.  Þetta tókst þeim og það skrifast alfarið Ögmund og félaga hans í framsóknarsjálfsstæðishreyfingunni.

Það sem Ögmundur gleymir er að lýðræðið ræðst ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.  Lýðræðið felst miklu meira í því að að þannig kjörnir fulltrúar þess þar á meðal Ögmundur, hafi kjark til að taka afstöðu inn á þingi (og sinni þannig sinni vinnu) sætti sig við niðurstöðu meirihluta þingsins og snúi sér að því að leysa brýnan vanda þeirra sem landið byggja.

Það eru því grátleg pólistísk örlög Ögmundar ef hann verður til þess að koma íhaldinu og framsókn aftur til valda.


mbl.is Stjórnin hefur ekki leyfi til að fara frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn á Íslandi hafa gleymt þeim sem minnst mega sín

Ég er ósáttur við Icesave, en þetta var eini kosturinn í stöðunni. 

Hins vegar eru bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar á þingi varla á vetur setjandi eftir að hafa klúðrað fjárlagafrumvarpinu nánast frá A-Ö.  Flestir ráðherrar í samvinnu við fjárlaganefndarþingmenn virðast hafa valið þann kostinn að príla upp á bak þeirra sem verst standa í þjóðfélaginu til að halda höfði sínu uppúr.  Þeir völdu einfaldlega þá hópa.  Líklega gerðist þetta vegna þess að hvorki ríkisstjórnin né þingið virðist hafa áhuga á að taka ábyrgð á samfélaginu og því var einfaldast að láta þá sömu embættismenn og hafa unnið fjárlög í góðærinu um fjárlögin núna.  Þannig gat stjórnmálagengið einbeitt sér að því að drepa tímann í Icesave leiknum.

Eini ráðherrann sem virðist hafa valið að skera niður af viti og án þess að það bitnaði á okkar minnstu bræðrum var utanríkisráðherra - af öllum.  Hann virðist líka vera eini ráðherrann sem stýrir ráðuneytinu sínu en lætur ekki íhalds og framsóknardindlana í embættismannahópnum trufla og skemma uppbyggingu í sínu ráðuneyti.  Betur væri að forsætis- og fjármálaráðherrar tækju Össur sér til fyrirmyndar að ekki sé talað um heilbrigðis- og félagsmálaráðherra. 

Og ekki eru ónytjungarnir í stjórnarandstöðunni betri - þeir völdu að eyða megninu af tíma sínum á þingi þetta ár í Icesavebullið í stað þess að standa vörð um þá sem minna mega sín. 

Og víkur þá sögunni að stjórnmálamönnum í sveitastjórnum - ekki sýna þeir fólkinu sínu mikinn skilning og hreyfðu hvorki hönd né fót til að benda samherjum sínum á þingi á delluna sem fjárlagafrumvarpið var. Þeir sitja þess vegna uppi með það að ríkið sturtar á sveitarfélögin í landinu nokkur hundruð milljónum í aukinn kostnað vegna félagsþjónustu.  Svei þessu gengi öllu saman. 

Eftir situr samfélag sem hefur miklu meiri áhuga á að byggja upp bankakerfið á ný og koma því í svipaða stöðu og einhverntíma fyrir hrun heldur en að huga að því fólki sem minnst má sín í samfélaginu.  Það verður af þeim sökum seint hægt að tala um núverandi ríkisstjórn sem norræna velferðarstjórn.  Sú ríkisstjórn sem nú situr þarf verulega að taka sér taki og snúa sér að því að sinna fólkinu í samfélginu nú þegar Icesave sandkassanum hefur verið lokað.  Og þingmennirnir sem við kusum í vor eiga að snúa sér að því að leita lausna og koma málum sínum fram og vinna saman.

Það gleymdist líka algerlega að hreinsa til í embættismannakerfi ráðuneytanna.  Baldur Guðlaugsson er örugglega ekki sá eini í þeim hópi sem graðkaði að sér verðmætum með upplýsingum sem hann fékk í krafti embættis síns og hann er örugglega ekki eini pólitískt ráðni skósveinn íhalds og framsóknar í efstu lögum embættismannakerfisins íslenska.  Jafnvel þó flestir þessara einstaklinga sinni störfum sínum þá ríkir gífurlegt vantraust á þennan hóp og því hefði auðvitað átt að setja efsta og næstefsta lagið á flot þannig að fólk væri fært til innan kerfisins eða það þyrfti jafnvel að sækja um stöðu upp á nýtt.  Í það minnsta þurfa allir aðrir að endurskoða stöðu sína í samfélaginu og ég get ekki séð hvað yfirmenn ráðuneyta hafa gert til að verðskulda að sitja rólegir í hægindum sínum.


Um siðferði í íþróttahreyfingunni

Jenný Anna Baldursdóttir hefur skrifað á blogginu sínu http://blog.eyjan.is/jenny/2009/12/29/2327/#comment-2435 um málefni KSÍ af miklum skörungsskap og ólíkt mörgum öðrum er Jenný Anna málefnanleg.  Hins vegar hnaut hún um eina af þessum leiðindaþúfum sem stundum þvælast fyrir okkur sem erum að blogga, en það er að setja allt og alla undir einn hatt.  Í þessu tilfelli féll hún í þá gryfju að setja alla íþróttahreyfinguna undir hatt KSÍ.  Ég leyfði mér því að brjóta gegn eigin ákvörðun og svara henni í eftirfarandi athugasemd.

"Sæl Jenný Anna.
Ég hef haft gaman af því að lesa bloggfærslurnar þínar, þú hefur verið beinskeytt og oft komist að kjarna málsins.
Ekki ætla ég mér að bera neinn sérstakan blak af KSÍ né heldur ætla ég að svara fyrir gjörðir einstakra starfs- eða stjórnarmanna KSÍ. Þau eru fullfær um það sjálf.
Ég ætla hins vegar að upplýsa þig um smá atriði sem mörgum bloggurum og álitsgjöfum virðist fyrirmunað að skilja, en það er að KSÍ er EKKI öll íþróttahreyfingin. Það hafa líklega fáir af þeim dómhörðu “ummælendum” málsins gert sér far um að kanna hvernig íþróttahreyfningin er uppbyggð hvaðan einstakir stjórnarmenn og sambönd sækja umboð sitt 0g gagnvart hverjum þau eru ábyrg. Og ég freistast til að álykta að enginn þeirra sem hér skrifa álit sitt fyrir ofan hafa svo mikið sem reynt að komast að því hvernig siðferði og siðareglum er fyrirkomið annars staðar í íþróttahreyfingunni. Að minnsta kosti hefur enginn haft uppi neina tilburði til að skoða það sem þó er til á blaði og birt á heimasíðum sérsambanda innan ÍSÍ. Ég leyfi mér að senda hér með hlekk á heimasíðu Sundsambands Íslands þar sem siðareglur sundhreyfingarinnar eru birtar. Þær eru að uppistöðu til frá árinu 2001 en eru auðvitað í stöðugri endurskoðun og sjálfsagt má eitthvað betur fara.
http://www.sundsamband.is/?ib_page=441&iw_language=is_IS

Kær kveðja
Hörður J. Oddfríðarson
formaður SSÍ"


Grjótið og glerhúsið

Verð að viðurkenna að ég hef haldið mér til hlés undanfarið hér á blogginu.  Ástæðan er fyrst og fremst sú að mér hefur ofboðið hversu rætinn og illgjarn málflutningur ýmissa bloggara í hinum ýmsu blogggáttum hefur verið.  Var jafnvel að hugsa um að eyða þessari bloggsíðu minni.  Lít reyndar svo á að þeir sem harðast ganga fram í að moka skít yfir björgunarsveitina eru þeir sem mesta sök eiga á ástandinu og þeirra leiguþý.

Kíkti á blogg Sigurjóns Þórðarsonar og leyfi mér að birta hér færsluna hans og athugasemd sem ég gerði.  Hann skrfar:

"Mun Ármann Þorvaldsson skrifa sögu Samfylkingarinnar?

Ekki er ég viss um að ég eigi eftir að lesa bók Ármanns Þorvaldssonar, Ævintýraeyjuna, enda hef ég ekki lyst á að koma við bókina, hvað þá meira. Ekki ráða þar eingöngu fordómar heldur hef ég ekki komist hjá því að kynnast höfundi og efni bókarinnar í gegnum fjölmörg viðtöl, m.a. á Útvarpi Sögu.

Höfundur bókarinnar talar um efnahagsglæpina sem hann framdi gegn Íslendingum af þvílíkri léttúð að hann virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir ábyrgð sinni í því að koma órorði á þjóðina og koma henni á vonarvöl. Hann hljómar svona nett eins og fjöldamorðingi sem segir að glæpirnir hafi verið áhugaverðir og skemmtilegir á sínum tíma sem nú er liðinn og komin eru önnur verkefni inn á sitt borð, m.a. þau að sinna ritstörfum og öðru skemmtilegu.

Í ljósi furðulegra samninga Samfylkingarinnar við þá sem ollu hruninu er alls ekki útilokað og jafnvel talsverðar líkur til þess að sagnfræðingurinn Ármann Þorvaldsson leggi fyrir sig ritstörf og skrifi sögu Samfylkingarinnar. Á þeim bænum er víst nokk sama hvaðan gott kemur."

Og ég svaraði honum af bragði:

"

 

Sæll minn kæri Sigurjón

Er þetta ekki dálítið eins og að hengja bakara fyrir smið þegar þú og fleiri hafa ekki betra pólitískt minni en það að halda að Samfylkingin sé upphaf og endir allrar spillingar í landinu og þar með aðalhrunvaldurinn? 

Ekki veit ég til þess að Ármann Þorvaldsson sé sérstakur velunnari Samfylkingarinnar og verð að viðurkenna að ég hef ekki séð hann þar á félagsfundum.  Get reyndar tekið undir með þér að þessi bókarskrif hans eru frekar undarleg, en hvað um það, honum hlýtur að vera frjálst að skrifa um málin frá sinni hlið.  Ég gæti jafnvel látið mér detta í hug að lesa bókina hans, þó ekki væri nema til að fá innsýn inn í hugarheim þess fólks sem svo illa hélt á málum innan íslenska bankakerfisins.  En til að fá skýringar á því hvers vegna menn höguðu sér eins og þeir gerðu þurfa aðrir en gerendurnir að greina, meta og skrifa um.

En nú verðurðu líka að upplýsa mig - hvaða furðulegu samningar hafa verið gerðir af Samfylkingunni við þá sem hruninu ollu?

Og þú mátt þá líka upplýsa mig hvers vegna leggja þarf djúpstæða pólítíska og persónulega merkingu í það þó einhver spyrji svona augljósrar spurningar "er ekki sama hvaðan gott kemur?".  Svari hver fyrir sig, en ég segi nei það er ekki sama.  En það þarf ekki að leggja neina sérstaka merkingu í það, hvorki til að skýra aðgerðir annarra einstaklinga, Samfylkingarinnar né fjölskyldu minnar.

Kær kveðja til þín, sjáumst í sjónum

Hörður J. Oddfríðarson, félagi í Samfylkingunni."

 

 


Grein sem birtist á saa.is

Á að neita unga fólkinu um meðferð ?

Á síðustu 10 árum hafa 6389 einstaklingar þurft að koma  á Sjúkrahúsið Vog í fyrsts sinn. Þegar aldur þeirra er skoðaður  vekur athygli að flestir eru á aldrinum 17-22 ára þegar þeir koma í fyrsta sinn í meðferð á Vog (2390).

Tæpur helmingur (2940) var 25 ára og yngri. Þetta sést betur á línuritinu hér til hliðar.

Líta má svo á að þessi þróun sýni að aðgangur að áfengis- og vímuefnameðferð sé góður fyrir ungt fólk og það komi því miklu fyrr til meðferðar en áður.

Það jákvæða við þetta er að batahorfur þeirra sem koma snemma í meðferð eru mun betri en hinna sem koma seint.

Nágrannaþjóðir okkar sem lent hafa í svipaðri kreppu og við vara eindregið við því að draga úr heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu fyrir unga fólkið okkar. Þeir sem koma í meðferð á Vog eru flestir á aldrinum 17-30 ára.

Ef draga þarf úr fjölda innlagna á Sjúkrahúsið Vog verður það auðvitað til þess að fólk kemur seinna til meðferðar. Það verður einnig til þess að vísa þarf frá mörgu fólki sem er á aldrinum 17-22 ára.

Þórarinn Tyrfingsson


Niðurskurður á fjárframlögum til SÁÁ

Hef verið hugsi yfir þeim hugmyndum heilbrigðisráðuneytisins að skera fjárframlög til SÁÁ niður um 70 til 100 milljónir króna á fjárlögum 2010.  Sérstaklega þar sem með því er gengið gegn undirrituðum þjónustusamningum sem sjúkrasamlag ríkisins gerði við SÁÁ á síðasta ári og í byrjun þessa árs. 

Þessi tilhneiging ríkisins til að sniðganga samninga sem það hefur gert eru einfaldlega svik - svik sem engum öðrum líðst.  Þessi vinnubrögð ríkisins hafa blómstrað í spillingu undanfarinna 15 ára og á stundum finnst manni ríkið ótrúlega þróað í þessari óheiðarlegu stjórnsýslu. 

Tökum dæmi til samanburðar.  Síðast liðið haust var okkur ljóst hjá SÁÁ að þrengingar voru framundan hjá okkur íslendingum.  Við gerðum okkur ljóst að allir þyrftu að leggjast á eitt til að við gætum veitt nauðsynlega þjónustu fyrir alkóhólista og aðstandendur þeirra.  Þess vegna var gripið til mjög sársaukafullra sparnaðaraðgerða strax sl vetur.  Við tókum á okkur 3,4% niðurskurð á fjárframlögum ríkisins auk þess sem stórir styrktaraðilar SÁÁ höfðu eðlilega hætt stuðningi sínum þar sem þeir voru ýmist komnir í þrot eða í greiðslustöðvun.  Þetta þýddi að mörgum vinnufélögum okkar og vinum var sagt upp störfum hjá SÁÁ.  Þetta gerðum við í góðri trú um að ríkið stæði að öðru leyti við samninga sem það hafði sjálft gert í gegnum sjúkrasamlagið sitt.  Við stóðum í þeirri trú að sömu lög og reglur giltu um ríkið og um okkur sem þegna Íslands, að ríkið þyrfti að standa við gerða samninga eins og við.

Á sama tíma virðist Landspítalinn/Heilbrigðisráðuneytið lítið sem ekkert gera til að bregðast við fyrirsjáanlegum vanda í fjármögnun spítalans enda kannski eðlilegt þar sem ráðuneytið fer fram á aukafjárveitingu á aukafjárlögum nú í haust til að loka gatinu.  Þetta eru viðteknar venjur á sama tíma og ríkið virðist telja sig geta gengið að sjálfsaflafé og eignum SÁÁ sem sjálfssögðum hlut.

Gleymum því ekki að í áraraðir hefur SÁÁ greitt tugi, og jafnvel yfir eitt hundrað milljónir, árlega með lögboðinni heilbrigðisþjónustu fyrir fíknisjúklinga umfram þessar hundrað milljónir sem til stendur að skera niður núna.   

Það er þess vegna nauðsynlegt að allir velunnarar SÁÁ taki höndum saman og sendi ríkinu góðar kveðjur og óski eftir leiðréttingu á þessari stjórnsýslu gagnvart SÁÁ.  Það er nefninlega ótrúlega aumt trikk hjá ríkinu að ráðast að fíknisjúklingum.  Það eru fáir aðrir en SÁÁ sem taka málstað þeirra.


Ég er ennþá hér

Já ég tók ákvörðun um að halda áfram að blogga hér á moggablogginu.  Ástæðan er einfaldlega sú að ég nenni ekki að færa mig.  Sé ekki ástæðu til að láta ritstjóraskipti á Moggaræflinum hrekja mig burtu - enda hefur DO ekki ritstjórnar- eða ábyrgðarvald á þessari síðu.  Vona bara að mér verði ekki hent út fyrir að vera Samfylkingarmaður.

Eru þessir menn alveg heilbrigðir?

Er von að maður spyrji.  Þeir hafa farið mikinn um helgina klaufabárðarnir Sigmundur Kögunar og Höskuldur (Forrest) Gump.  Nú er Jóhanna þeirra helsti óvinur og verður sífellt verri.  Að hún skyldi voga sér að spyrja félaga Jens hinn norska út í lánið sem þeir voru búnir að fá fyrir Ísland. 

Þessir undarlega innréttuðu menn hafa notað helgina til að veikja samstöðu íslensku þjóðarinnar, til að skemma fyrir því fólki sem raunverulega er að reyna finna leið út úr vanda þjóðarinnar, til að telja fólki trú um að til sé einhver hókus pókus lausn á vandanum, til að níða niður forsætisráðherra þjóðarinnar og til að veikja stöðu hennar og þjóðarinnar gagnvart erlendum ríkjum.  Verst er þó að þessir menn, þeir Höskuldur og Sigmundur hafa uppi svo undarlegar kenningar um samsæri gegn þeim sjálfum að ég get ekki varist þeirri hugsun að þeir ættu að líta í eigin barm áður en þeir viðra þessar kenningar sínar næst.  Kannski á máltækið "margur heldur mig sig" bara ágætlega við hér.


Nú þarf SÁÁ á öllu sínu fólki að halda

Hér fyrir neðan er grein sem birtist á saa.is. 

Félagsfundur verður haldinn í Von, þriðjudaginn 6. október klukkan 20:00. Nú er Stórfundurinn á miðvikudaginn 7. október og til að taka lokahnykkinn á undirbúninginn og þjappa saman hópnum, þá er boðað til skrafs og ráðagerða. Allar góðar hugmyndir og vinnufúsar hendur eru vel þegnar. Nú látum við hendur standa fram úr ermum.Þegar miklir erfiðleikar steðja að, reynir á siðferðisþrek okkar og samfélagsvitund og hið rétta eðli okkar kemur í ljós. Við þær aðstæður kemur líka í ljós hverjir eru hinir sönnu bandamenn og vinir. Við lifum nú á slíkum tímum og á næstunni verður það hlutverk allra siðaðra manna og kvenna að líta í kringum sig og berjast fyrir lítilmagnann um leið og reynt er að bjarga því sem við teljum verðmætast. Þegar skip sekkur er það háttur siðaðra manna að stilla sig og hemja og leyfa konum og börnum að fara fyrst í björgunarbátana. Smellið á til að sjá ávarp Þórarins Tyrfingssonar frá síðasta félagsfundi, þann 29. september sl.

Skítkast Sigmundar og undirtektir Ögmundar

Ég varð meira en lítið undrandi þegar ég sá haft eftir Ögmundi Jónassyni fyrrum ráðherra í DV að honum hefði þótt málflutningur Sigmundar Váboða Kögunarsonar formanns Framsóknarflokksins bestur í umræðum á alþingi í kvöld.  Kemur þar eitt og annað til. 

Í fyrsta lagi vriðist sem Ögmundi líki vel þegar Sigmundur smyr hann lofi, í öðru lagi þá töluðu í umræðunum tveir ágætir ráðherrar úr röðum VG þær Katrín og Svandís.  Þær voru málefnanlegar, raunveruleikatengdar og skörulegar.  Í þriðja lagi þá þvældi Sigmundur svo um skuldir og tölur að hann komst að minnsta kosti tvisvar sinnum í mótsögn við sjálfan sig í sömu ræðunni og var þar að auki dónalegur við þingforseta og í fjórða lagi þá réðst Sigmundur með heift á fyrrum kollega sína og Ögmundar á fréttastofu RÚV, með ásökunum um að fréttamenn RÚV gengju erinda Samfylkingarinnar.  Ég hélt í einfeldni minni að Ögmundur væri ennþá formaður BSRB og finnst það satt að segja hjákátlegt ef hann tekur undir árásir Sigmundar á félagsfólk þar.  Þetta eru ansi kaldar kveðjur frá þeim félögum til fréttafólks.

Annars voru ræður þingmanna nokkuð misjafnar.  Ef frá er talin versta ræðan þe Sigmundar Váboða, þá má segja að ræður þeirra Bjarna Ben, Birgittu og Þórs í hreyfingu auk ræðu Ragnheiðar Elínar hafi átt minnst skylt við málefnanlega umræðu, þær voru fyrst og fremst skítkast og yfirklór óhæfra þingmanna.  Siv, Björn Valur og Sigurður Ingi voru svona ósköp rislítil og geta gert miklu betur.

Margrét Tryggvadóttir kom mér á óvart fyrir að vera málefnanleg og það sama má segja um Þráinn Bertelsson þó það hafi ekki komið mér sérstaklega á óvart að hann væri málefnanlegur.  Þorgerður Katrín átti ágæta spretti í sinni ræðu, hún var greinilega með báða fætur á jörðinni, Ólína Þorvarðar var sköruleg að vanda og Árni Páll félags- og tryggingaráðherra kom vel út og er vaxandi í starfi sínu. Jóhanna sýndi í þessari umræðu hversu hæf hún er og hvað það var einfaldlega rétt að gera hana að forsætisráðherra.  Saknaði þess að heyra ekki í Steingrími J.

Annars var skrýtið að hlusta á stjórnarandstöðuna sem var bæði á móti hækkun á sköttum og niðurskurði í ríkisútgjöldum, var bæði á móti AGS og samstarfi við erlend ríki en benti ekki á neina leið út úr vandanum.  Þau áttu engin svör.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband