Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.10.2009 | 00:05
Guðfríður með geislabauginn
Ég hef satt að segja ákveðnar áhyggjur af því þegar þingflokksformaður VG fer viljandi með staðlausa stafi í samtölum sínum við blaðamenn mbl og í silfri egils. Sú endemis vitleysa að Ögmundur og hinir ráðherrarnir hafi gert sér leik að því að halda henni frá Icesave í sumar er orðin þreytandi. Jafn þreytandi og aum og þetta sífr hennar um að Ömmi sé svo staðfastur og heiðarlegur að hann geti ekki, frekar en hún, unnið með þessu óheiðarlega liði sem situr í ríkisstjórninni. Þetta bölvaða bull er ekki pólitík, þetta er aumingjagangur fólks sem ekki ætlar að axla ábyrgð á því að koma landinu upp úr því bulli sem íhald og framsókn sökktu okkur í.
Möguleikarnir á afsögn Ögmundar eru tveir: Annars vegar hefur hann ekki treyst sér til að vera hluti af ríkisstjórninni sem þarf óumflýjanlega að skera töluvert niður í ríkisútgjöldum, hann er jú ennþá formaður BSRB, eða hann er svona mikill þvergirðingur í samstarfi að hann getur ekki unað forystu annarra, svo sem forsætisráðherra. Ögmundar vegna vona ég að það sé síðarnefndi möguleikinn.
Þetta Icesave blæti þeirra Ögmundar, Guðfríðar Lilju og Lilju Mósesdóttur er á góðri leið með að koma íslensku þjóðinni í verra klandur en áður. Þau virðast ekki skilja hversu mikilvægt er að koma þessu máli afturfyrir í atburðarrásinni til að komast eitthvað áfram. Það er flestu öðru skynsömu fólki ljóst að allir íslendingar eru mjög á móti því að þurfa að borga Icesave, en samningar þar um við Breta og Hollendinga gætu lágmarkað skaðann sem við verðum fyrir. Og það er einmitt málið að lágmarka skaðann og koma okkur sem fyrst í þá stöðu að ná til baka stöðu okkar. Koma okkur sem fyrst í þá stöðu meðal þjóða að Bretar og Hollendingar neyðist til að taka mark á okkur. Miðað við framgöngu Guðfríðar Lilju verður lítið úr því vegna þess að hún og Ögmundur félagi hennar hafa ákveðið að koma íslendingum illa á alþjóðavettvangi. Þau verða þá að vera tilbúin að taka þeirri gagnrýni án þess að kenna öðrum um. Nema þau vilji vera naðran sem íhaldið og framsókn vantar til að komast aftur til valda - það væri reyndar tragikómískt ef þessi þrjú yrðu til þess. En kannski eigum við ekki annað skilið sem þjóð.
Samþykktu Icesave blindandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2009 | 22:33
Klaufabárðarnir
Þeir voru svona eins og tékknesku klaufabárðarnir Sigmundur váboði Kögunarson og Höskuldur fimm mínútuformaðurinn og Noregsfari þegar þeir gerðu sér erindi í forsætisráðuneytið í gær, töluðu við dyravörðinn og veittu svo fjölmiðlum viðtal. Og erindið, jú að segja frá því að nýkjörinn þingmaður framsóknarflokksins í Noregi vill endilega að lána íslendingum 2.000.000.000.000,00 þe tvö þúsund milljarða. Þess má geta svona í framhjáhlaupi að framsóknarflokkurinn í Noregi er með 6,2% fylgi og ekki víst að flokkurinn verði í aðstöðu til að bjóða svo rausnarlega aðstoð. Enda kom í ljós að talsmönnum norsku Samfylkingar og norska VG var ekki skemmt og útilokuðu aðra aðstoð en þá sem fylgir áætlun AGS líkt og þeir hafa gert áður á þessu ári.
Það er annars að frétta af klaufabárðunum í Framsókn að þeir sækjast eftir því nú að komast í fjölmiðla til að segja frá því hvernig íslenska ríkisstjórnin hafi klúðrað stóra norska láninu. Þetta eru kannski vinnubrögðin sem á að viðhafa ef klaufabárðarnir komast í ríkisstjórn - ljúga upp atburðarás og kenna svo öðrum um að hafa klúðrað. Vona bara að þeir komist aldrei í ríkisstjórn.
1.10.2009 | 20:17
Það er svo undarlegt......
Mér finnst það undarleg ráðstöfun hjá félaga Ögmundi að vilja ekki reyna að hafa bein áhrif á niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í Icesave málum og telja sig betur settan áhrifalítinn þingmann stjórnarflokks. Það eru ekki mjög sannfærandi rök í málinu að setja prisippin svo fyrir sig að hann móðgast ef forsætisráðherra kalli eftir því að ríkisstjórnin tali einum rómi í máli sem skiptir verulega miklu gagnvart umheiminum. Ég vonaðist til að hann hefði úthald til að standa fyrir sínum hluta af fjárlögunum varð ekki að ósk minni. Í staðinn er kominn Álfheiður Ingadóttir gömul vinkona mín úr Alþýðubandalaginu sáluga. Mér finnst það ekki mjög undarlegt því Álfheiður hefur vaxið verulega pólitískt undanfarna mánuði og ár og hlakka til að hafa hana í ráðuneyti heilbrigðismála - ráðuneytinu sem ræður því hvort það verður hægt að verja þjónustu við fólk í landinu. Ég skil reyndar ekkert í Steingrími J að gera tillögu um Guðfríði Lilju sem fyrsta kost en svona gerast kaupin á VG eyrinni.
Er hrifinn af því hvernig Jóhanna hefur beitt sér undanfarið og sýnt hvílíkur eðalkarakter hún er.
28.9.2009 | 21:40
Viðhaldsmeðferðin á Vogi hefur valdið byltingu.
Ég leyfi mér að taka og birta hér fyrir neðan grein sem tekin er af síðu SÁÁ - saa.is um viðhaldsmeðferð sprautufíkla. Þessi meðferð hefur gefið góða raun og sparað íslensku samfélagi milljónir í löggæslu, viðbúnaði á bráðadeildum og geðdeildum auk óbeinna jákvæðra áhrifa. En hér kemur greinin.
"Viðhaldsmeðferðin er lyfjameðferð fyrir sprautufíkla sem eru háðir morfíni. Í byrjun meðferðar fara sprautufíklarnir á Sjúkrahúsið Vog og þaðan í framhaldsmeðferð í 4-6 vikur. Eftir það sækja þeir lyfin sín á Vog mis oft sundum daglega en oftast vikulega. Flestir sjúklingarnir sem fara í þessa meðferð hafa verið oftar en 10 sinnum á Vogi og margsinnis reynt önnur meðferðarúrræði án árangurs.
Komið hefur í ljós að þessi viðhaldslyfjameðferð hefur reynst flestum þessara sjúklingum eins og kraftaverk. Í fyrsta sinni hafa þeir getað sótt sína eftirfylgni og framhaldsmeðferð og haldið sig frá vímuefnum í einhvern tíma. Í kjölfarið hafa þeir axlað félagslegar skyldur sínar í vaxandi mæli. Þeir hafa í fyrsta skipti getað sótt sér félagslega aðstoð og nám. Tekið vaxandi þátt í uppeldi barna sinna,atvinnulífinu og losað sig frá dómum og skilorðum. Fjárhagslegur ávinningur fyrir þjóðfélagið er gríðarlegur.Umfang þessarar meðferðar hefur vaxið stöðugt á þessum 10 árum og þá ávinningurinn líka. Í dag eru um 65 konur og karlar í slíkri meðferð frá Sjúkrahúsinu Vogi. Það eru fleiri en innritaðir eru á bæði Staðarfell og Vík. Lyfjaafhendingar eru um 4000 á ári og læknaviðtöl 700. Lyfjakostnaður hefur hækkað talsvert vegna gengisbreytinga og er í dag um 25 milljónir á ári. Heildarkostnaður við þessa meðferð er um 40 milljónir á ári. "
Svo mörg voru þau orð. Það er mjög mikilvægt að allir sem vettlingi geta valdið komi í Háskólabíó miðvikudagskvöldið 7. október 2009. Húsið opnar kl. 19:00 og dagskrá hefst kl. 20:00. Þannig sýnum við stuðning okkar við SÁÁ í verki.
28.9.2009 | 16:42
Verðbréfaguttinn
Guðmundur Franklín verðbréfasali er að verða fastagestur hjá Agli Helgasyni. Guðmundur þessi virðist hafa allt að því dáleiðandi áhrif á Egil Helgason að minnsta kosti fór ekki mikið fyrir gagnrýnum spurningingum hjá sjónvarpsstjörnunni í gær þar sem hann mændi á viðmælandann Guðmund Franklín.
Þeir félagarnir eyddu dýrmætum tíma í að þylja upp atriði sem öllum eru ljós, eins og að ytri aðstæður áttu sinn þátt í hruni bankanna, að bankarnir höfðu stækkað heldur mikið fyrir hrunið og bönkunum var illa stjórnað. Guðmundur lét sig meira að segja hafa það að eftirlitið með bönkunum hafi verið lélegt og að stjórnmálamennirnir hefðu dansað með. Það er dálítið merkilegt hvað Egill er fundvís á einstaklinga sem höfðu séð hrunið fyrir allt að þremur árum áður en það varð. Þessir einstaklingar fylla flokk með Davíð Oddssyni og fleirum sem engin áhrif virðast hafa haft í íslensku þjóðfélagi.
Guðmundur Franklín sagði andaktugur að ekkert hefði verið gert til að ná tökum á ástandinu hér á Íslandi, enginn hefði gert nokkurn skapðann hlut nema rífast um Icesave og ESB. Hann ráðleggur íslendingum að gleyma bara Icesave og hneykslast á því að bara einhverjir hafi verið sendir til að semja. Guðmundur virðist hafa góð sambönd inn í bresku samninganefndina amk miðað við hvernig hann talar en hann lýsti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem varðhundi fjármuna breta og fleirri. En svo hélt áfram að slá út í fyrir honum, hann virtist halda að lán AGS væri til að nota til að borga Icesave - þvílík steypa.
Guðmundur tók síðan seðlabankastjóra í stutta kennslustund um stýrivexti og taldi 12% stýrivexti í 11% verðbólgu alltof háa. Sem skýrir líklega hvers vegna hann er hættur verðbréfamiðlun á Wallstreet.
Guðmundi fannst lífeyrissjóðirnir til óþurftar og setti síðan fram plan um efnahagsráðstafanir fyrir Ísland. Í þeim hluta þáttararins glitti í vitglóru eins og þegar hann talaði um verðbætur, veðsækni banka og lögfræðiaðgerðir en svo sló fljótt út í fyrir honum aftur. Þá fór hann að tala um að setja skattfrelsi á fyrirtæki í landinu og bætti svo um betur og fann atvinnuleysisbótum allt til foráttu. Hann gerði ráð fyrir að íslendingar væru upp til hópa óheiðarlegir atvinnuleysingjar að vinna svart og hirða bætur með.
Ekki fékk rikisstjórn Samfylkingar og VG háa einkunn hjá verðbréfaguttanum. Hann taldi að ríkissjtórn Jóhönnu hefði sett hér allt á frostmark og hún ætti að segja af sér - líklega til að koma íhaldinu og framsókn aftur að. Þá glitti einnig í íhaldssama þjóernisrembuna þegar hann talaði af innblásnu og upphöfnu viti um EB. Samkvæmt því sem Guðmundur segir eigum við að selja okkur álfyrirtækjunum hið fyrsta.
Kyssum á vöndinn - förum alla leið til helvítis og fáum Guðmund Franklín til að redda þessu - hann þarf þrjár vikur til eða svo.
1.9.2009 | 21:49
Að lifa í fortíðinni - aftur
Það er undarlegt að halda í öll þessi ár að landið okkar sé sameign okkar íslendinga og auðæfin sem landið gefur af sér þar með líka. Það er að segja, það er undarlegt til þess að hugsa að einhver stjórnmálamaður vilji raunverulega gefa frá sér yfirráð yfir auðlindum landsins til útlendinga fyrir heldur lítið fé og ekkert öryggi. En þetta er það sem íhaldið og framsókn eru að gera í Reykjavík og nota sömu óþverraaðferðirnar og þeir komu sér upp árin fyrir hrun.
Og ennþá er til fólk sem hefur geð í sér að kjósa þessa stefnu, þessar aðferðir, þetta fólk.
24.8.2009 | 23:14
Siðlaus gjaldþrot - hvar var eftirlitið?
24.8.2009 | 10:20
Axlabönd og belti lánveitanda
Það er haft fyrir satt í einhverjum fjölmiðlinum að bankarnir hafa eindregið lagst gegn frumvarpi um bætta stöðu skuldara sem Lilja Mósesdóttir er fyrsti flutningsmaður að. Samkvæmt frumvarpinu á krafa lánardrottins á skuldunaut að falla niður, fáist andvirði veðsins ekki við nauðungarsölu hinnar veðsettu eignar og ekki má ganga að öðrum eigum lántakandans.
Það er ósköp eðlilegt að þær stofnanir og fyrirtæki (og arftakar þeirra oft auðkenndir með "Nýja/i"), sem hafa lifað á því í gegnum tíðina að hafa fé af venjulegu fólki á siðlausan hátt, leggist gegn því að matarholunni þeirra verði lokað. Þá þyrfti jafnvel að lækka laun yfirmanna þeirra niður í laun forsætisráðherra og öll fríðindin gætu verið af þeim tekin. Og ekki má gleyma því að lögfræðideildirnar gætu skroppið saman.
Kannski sitjandi Alþingi láti svo lítið (svona mitt í Icesave ruglingi framsóknar og íhalds) að reyna að finna leiðir til að jafna aðstöðu lánveitenda og venjulegra lántakenda þannig að þeir síðarnefndu séu ekki látnir standa undir oflaunum stjórnenda bankastofnanna í landinu.
En svo snýst þetta líka um félagsskapinn sem Lilja Mósesdóttir velur sér. Hún flytur þetta frumvarp með nokkrum öðrum framsóknarmönnum úr þremur flokkum. Það man kannski enginn eftir því að það var framsóknarflokkurinn ásamt íhaldinu sem kom bönkunum í þessa stöðu að geta gengið að venjulegu fólki og handrukkað það.
23.8.2009 | 22:18
Áhugavert
Það er áhugaverð hugmynd sem Sigurður G. Guðjónsson lögmaður reifar þegar hann tala um að upphaflegir samningar eigi að standa. Það verður skemmtilegt að fara í bankann á morgun (þe nýja bankann) og benda þeim á að þeir séu búnir að hafa af mér fé síðan í október að minnsta kosti. Maður nær þá endunum saman þessi mánaðamótin. En mér segist svo hugur að bankastjórar hafi ekki breyst mjög mikið - bankinn minn mun örugglega benda mér á það að mér beri að greiða það sem honum hentar að öðrum kosti sitji ég upp með lokaða reikninga, lokuð kort og aukakostnað sem nemur tugum eða hundruðum þúsunda vegna lögfræðikostnaðar og fleira.
Ég var í Borgarfirðinum í dag - var í berjamó með minni heittelskuðu og fannst merkilegur munur á sumarbústaðnum sem byggður var á stríðsárunum og fjölskylda konunnar minnar nýtir og svo einbýlishúsinu sem Sigurður (fyrrverandi starfandi stjórnarformaður í bankanum mínum) Einarsson er að láta byggja fyrir sig hinum megin við Norðurá. Og bankinn minn heldur áfram að láta mig greiða aukakostnaðinn sem er afleiðing af gerðum umrædds Sigurðar.
28.4.2009 | 19:18
Dæmum varlega!
Var gerð tilraun til að hengja bakara fyrir smið?
Getum við sett mælikvarða 2009 á verk fólks 2006?
Það er auðvitað þannig að árið 2006 láku fjármunir nánast úr öllum opum fyrirtækja og einstaklinga og fólk og samtök fóru um héruð til að sækja styrki til útrásarfyrirtækja og banka. Leikfélög, mannúðarsamtök, stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar nutu góðs af.
Það er auðvitað hægt að spyrja hversu siðlegt það er fyrir stjórnmálamann að þiggja upphæðir sem nema jafnvel fjórum til átta meðalmánaðarlaunum venjulegs verkafólks.
En gleymum því ekki að stjórnmálaflokkarnir, þeir sem voru þar í forystu en ekki síður við hin sem skipum fótgönguliðið öttum þessu fólkið útí rándýr prófkjör.
Það vorum við sem raunverulega ákváðum að hafa ekki hámark á þeim styrkjum sem fólkið mátti fá.
Við settum ekki þak á það hvað mætti eyða í slíka baráttu osfvr.
Þess vegna er það galin hugmynd að gera einstaklinga ábyrga fyrir því andrúmi sem ríkti fyrir þremur árum.
Byrjum á því að kalla eftir því að allir stjórnmálaflokkar og allir þeir einstaklingar sem tóku þátt í prófkjöri árið 2006 opni bókhaldið sitt - dæmum svo.
Engar breytingar í RN | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |