Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Makalaus druslugangur þingmanna

Óþverragengið sem hefur fjarstýrt Íslandi á undanförnum áratugum hefur rakað að sér fjármunum og áhrifum með fullu samþykki þings og ríkisstjórna allan tímann.  Á meðan hafa áhrif þingsins nánast horfið og endanlega varð þingið óstarfhæft þegar Sturla Böðvarsson fékk fyrirmæli um að setja ekki efnahagsumræður á dagskrá þingins þegar það kom saman eftir jólafrí.  Ekki höfðu kollegar Sturlu í forsætisnefnd þingsins þrek til að standa gegn dellunni og allir þingmenn stjórnarliðsins og flestir þingmenn stjórnarandstöðu gættu þess að láta litið sjást í sig þennan dag.  Þingmenn höfðu semsagt ekki þrek til þess að vinna vinnuna sína. 

Það verður þess vegna að spyrja þingmenn allra flokka hvers vegna þeir létu þessi vinnubrögð þróast og viðgangast.  Og þetta þarf að vera eins og í leiknum Frúin í Hamborg, það má ekki segja svart og ekki hvítt, ekki já og ekki nei.  Það þýðir að allir þingmenn td frá árinu 1995 þurfa að svar því hvers vegna þeir létu ráðherra vaða uppi og samþykktu það að þingið væri aftengt sem löggjafi og stjórnandi en varð þess í stað afgreiðsluborð fyrir frumvörp frá pólitískt ráðnum embættismönnum sem gættu fyrst og fremst hagsmuna þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem hafa fengið verðmæti þjóðarinnar gefins og farið illa með þau. 

Eitt af þessum makalausu dæmum er kvótaúthlutunin um daginn þegar kvótaliðið sem sett hefur landið á hausinn fékk 30000 tonn til viðbótar í hítina sína.  Svo var umræðunni drepið á dreif með því að gefa út hvalveiðikvóta.

Annað dæmi er auðvitað að þingmenn stjórnarflokka á hverjum tíma hafa talið sig þurfa að tala sem eitt lið.  Með því eru þingmenn auðvitað að gefa þjóð sinni langt nef og gera sjálfum sér ómögulegt að fara að þeim eiðstaf sem þeir undirrita sem þingmenn.  En við hverju er að búast þegar forseti Alþingis er algerlega ótengdur samfélaginu og settur sem hver önnur drusla af stjórnarflokkum hvers tíma sem vörður um áhrifaleysi þingsins.  Getum við búist við því að einhver núverandi þingmaður hafi bein í nefinu til standa vörð um virðingu þingsins?  Eða telja núverandi þingmenn að virðing þingsins sé mæld í því hvort karlþingmenn mæti örugglega með bindi í þingsal?

Það breytir ekki öllu úr því sem komið er hvort núverandi þingmenn og konur reyna að breyta starfsháttum þingsins næstu 83 daga en það er nauðsynlegt að núverandi þing gangi í það að ná til baka eignum þjóðarinnar sem eru nú í höndum einstaklinga og fyrirtækja sem nota þær til veðsetningar.  Með þeim hafa þessir aðilar rakað að sér fé á ábyrgð íslensku þjóðarinnar.  Þetta fé er nú horfið og enginn virðist geta gert grein fyrir því hvert það fór. Og þingmennirnir okkar hafa lítið gert til að finna þetta fé.  Þeir hafa bara treyst ríkisstjórninni og haarderað - fram að þessu.


Fáráðar í Framsókn?

Hversu spilltur þarf einstaklingur að vera til að verða formaður Framsóknarflokksins?  Hversu illa raunveruleikatengdur þarf maður að vera til að vera í stjórn þess sama flokks?  Hversu óheiðarlegur þarf maður að vera til að vera þingmaður Framsóknarflokksins?

Þetta eru spurningarnar sem maður heyrir þegar þessi ótrúlega staða er komin upp:  Fyrst kemur formaður Framsóknarflokksins með tilboð um að verja minnihlutastjórn ríkisstjórnar Samfylkingar og VG falli.  Þá sagði hinn óreyndi fulltrúi Finns Ingólfssonar (les. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) að Framsóknarflokkurinn vildi sækja sér frekara umboð til kjósenda áður en þeir settust í ríkisstjórn.  Næst kemur upp undarlegt skilyrði um kosningardag og virðast vilja koma í veg fyrir eðlilega lýðræðsilega kosningabaráttu.  Og nú er kominn upp þessi frábæra staða að þeir neita að koma þessari ríkisstjórn af stað nema Framsóknarflokkurinn ákveði hvaða leiðir verða farnar í efnahagsmálum þjóðarinnar.  Framsóknarflokkurinn sem á helmingshlut í efnahagslegu hruni Íslands.

Það liggur við að maður geti tekið undir þegar maður heyrir fólk spyrja; "hversu mikill fáráður þarf maður að vera til að vera framsóknarmaður?".  Eða verður maður einfaldlega að gera ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn ætli að halda áfram að styðja við spillinguna í landinu og gæta að hagsmunum stóreignamanna - þeirra sömu og flokkurinn gaf Búnaðarbankann, VÍS og Landsímann?

Er ekki kominn tími til að losa okkur við þessa óværu sem herjar á Ísland.


mbl.is Þríeykið þingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný ríkisstjórn og þingræði?

Nú þegar hyllir undir nýja ríkisstjórn þá er nauðsynlegt að hnykkja á nokkrum mikilvægum atriðum.  Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að ríkisstjórnin segi þjóðinni nákvæmlega hvernig staðan er og upplýsi hvaða áætlun verður sett í gang.  Í öðru lagi væri snjall leikur hjá nýjum forsætisráðherra  Jóhönnu Sigurðardóttur að halda upplýsingafundi fyrir blaðamenn einu sinni til tvisvar í viku til að upplýsa þjóðina um gang mála.  Það myndi líka koma í veg fyrir að hún einangraðist.  Í þríðja lagi þarf að losa um embættismannakerfið hvar íhaldið og framsókn hafa á undangengnum árum plantað sérstökum vildarvinum sínum. Í fjórða lagi þurfa þingmenn Samfylkingar og VG að standa í lappirnar og sjá til þess að fram á vor ríki hér þingræði en ekki ráðherraræði.

Það er heldur engin ástæða til að kjósa fyrr en í seinni hluta maímánaðar.  Þar ráða ýmsir hagsmunir.  Ný ríkisstjórn þarf 80 til 100 daga til að hreinsa til eftir dugleysi Geirs og félaga.  Flokkarnir þurfa allir að hafa tíma til að halda landsfundi og koma skipulagi sínu heim og saman. Þeir sem vilja koma nýjum framboðum að þurfa að minnsta kosti þann tíma og síðast en ekki síst að margt ungt fólk er í prófum í lok apríl og byrjun maí og þetta unga fólk á rétt á því að geta látið til sín taka í kosningabaráttunni og á listum framboðanna.  Þetta er fólkið sem þarf að borga óreiðuskuldirnar eftir einkavini framsóknar og íhalds.

Fram undan eru tímar niðurskurðar í fjármálum ríkisins og mikið versnandi afkoma fjölskyldna og fyrirtækja í landinu.  Það væri því að æra óstöðugan ef Framsóknarflokkurinn og sjálfstæðisflokkurinn næðu meirihluta hér að loknum kosningum í vor.  Það væri ansi voldugur fingur sem þjóðin fengi við það.  Það verður því nauðsynlegt að tryggja góða útkomu Samfylkingarinnar og VG í vor. En það þýðir líka að þessir tveir flokkar verða að standa sig fram að kosningum - annars er að litlu að hverfa hér á Íslandi í náinni framtíð.

LIFI BYLTINGIN


Subbuskapur Framsóknar.

Það verður ekki á sérstakan skjólstæðing Finns Ingólfssonar og Ólafs Ólafssonar logið.  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýnir hið einstaka framsóknareðli og fer fram á sérstaklega óheiðarlegan hátt þegar hann truflar stjórnarmyndun Samfylkingar og VG.  Sigmundur Davíð ætti auðvitað að vera nægilega skyni borin og vita að það er ekki traustvekjandi að stela hugmyndum annarra.  Það er heldur ekki traustvekjandi þegar hann bætir sífellt í "skilyrðin" sem sett eru fyrir að verja minnihlutastjórnina falli.

En svona er lífið og ekki á allt kosið.  Aumingja maðurinn verður að telja fólki trú um að Framsóknarflokkurinn hafi breyst, en jafnframt er hann nauðbeygður að gæta hagsmuna S-hópsins því S-hópurinn mun auðvitað borga kosningabaráttuna.  Ég geri ráð fyrir að Finnur Ingólfsson, Ólafur Ólafsson, Helgi S. Guðmundsson að ógleymdum Gunnlaugi Sigmundssyni muni gauka að Sigmundi Gunnlaugssyni einhverju klinki fyrir flokkinn.

Subbuskapurinn verður seint skafinn af Framsóknarflokknum.  Við verðum bara að vona að kjósendur refsi Framsóknarflokknum eftirminnilega í kosningunum í vor um leið og þeir gera sjálfstæðisflokkinn útlægan úr íslenskri pólitík.


mbl.is Ekki óskaríkisstjórn Sigmundar Davíðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

óVirðing og Ranglæti

Það er auðvitað með ólíkindum að Gunnar Páll Pálsson skuli komast upp með svipaða aðferðafræði inn í VR og Lífeyrissjóði Verslunarmanna og Davíð Oddsson í Seðlabankanum - að sitja þar til á hann sannast sóðaskapurinn, þó allir aðrir sjái óþverran. 

Á meðan getur hann hirt meira fé af okkur sem erum sjóðsfélagar í LIVE (fáránlegt nafn á Lífeyrissjóði Verslunarmanna) og haldið áfram að makka með atvinnurekendunum vinum sínum.  Það er nefnilega þannig að ATVINNUREKENDUR skipa hálfa sjóðsstjórnina og geta misfarið með fé og eignir sjóðsins ef þeim sýnist svo, sérstaklega ef siðlitlir einstaklingar eins og Gunnar Páll sitja þar með þeim.

Það sem þeir hafa sér til réttlætingar er að svona séu bara lögin og þeim beri að sitja þarna samkvæmt samþykktum sjóðsins og sjóðunum beri að fara að fjárfesta á ákveðinn hátt.  En hafi þeir ekki tekið eftir því þá er það með öllu óviðunandi árið 2009 að sjóðsfélagar í Lífeyrissjóði Verslunarmanna kjósi ekki úr sínum röðum sjóðstjórn.  Það er með öllu óviðunandi árið 2009 að atvinnurekendur séu eitthvað að fikta í lífeyri venjulegs fólks, því það hefur sýnt sig að flestum þeirra er varla treystandi fyrir eigin fé hvað þá annarra.  Það er líka óviðundandi að stærsta verkalýðsfélag landsins sjái ekki sóma sinn í að vinna eftir lágmarksleikreglum lýðræðisins.

Þess vegna var það ósköp undarlegt að félag með mörg þúsund félagsmenn skuli kalla til trúnaðarráð og trúnaðarmenn, rétt rúmlega eitthundrað einstaklinga til að hafa óeðlileg áhrif á kosningu formanns.  Sérstaklega á þetta ekki við núna þegar formaður félagsins hefur orðið uppvís að ótrúlegu siðleysi og jafnvel glæpsamlegu athæfi (tek það fram að það er ósannað) og með því tapað milljörðum af lífeyri félagsmanna.

Um framgöngu Þorgeirs Eyjólfssonar framkvæmdastjóra LIVE væri svo hægt að skrifa langan pistil sem kannski kemur seinna.

LIFI BYLTINGIN


mbl.is Gunnar Páll fékk þorra atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúnaður við kjósendur skiptir höfuðmáli

Það skiptir máli að ná skriði strax á aðgerðir, en það skiptir ekki síður miklu máli að segja þjóðinni hreint út hvernig staðan er.  Trúnaður við þjóðina skiptir höfuðmáli hér ekki hver er í hvaða hásæti.  Svo þurfa þessir langsetumenn og konur að fara venja sig við að tala við fólkið sem stendur á bakvið það.
mbl.is VG leggur línurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með stjórnarslit.

Það er öllum ljóst að verkstjórn sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn undanfarna mánuði hefur verið afskaplega léleg.  Því var ekki annað í spilunum en að koma íhaldinu frá stjórn landsins þannig að verkefnin sem fyrir liggja komist til framkvæmdat. 

Nú skiptir miklu máli að segja þjóðinni frá stöðu mála og draga ekkert undan.  Nú skiptir miklu máli að þingmennirnir verði gerendur og ábyrgir í störfum sínum og láti ekki ráðherravaldið draga sig áfram á asnaeyrunum.

Geir hefur uppi meiningar að Samfylkingin hafi ekki þrek til að klára málin en þvert á móti Samfylkingin hefur þrek til að taka á málum þegar allt er komið í óefni.  Spurningin er einfaldlega sú hvers vegna Samfylkingin tók ekki fyrr af skarið.

 LIFI BYLTINGIN.


Burt með óhæft fólk

Nú þegar búið er að víkja forstjóra og stjórn FME er rétt að halda áfram og losa okkur við óhæfa bankastjórn og bankaráð Seðlabankans.

Það væri verulega gott ef Davíð Oddsson treystir sér út í pólítík á ný, þannig væri hægt að kjöldraga hann fyrir öll þau pólítísku mistök sem eftir hann liggja á löngum stjórnmálaferli.

Annars fer að verða spurning um að kalla saman Landsrétt og rannsaka landráð af fullri alvöru.

LIFI BYLTINGIN


mbl.is Mótmælt við Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin G setur siðbótina í gang á ný.

Það kom svo sem ekki á óvart að Björgvin G. Sigurðsson skyldi segja af sér í morgun.  Það helsta sem kom á óvart var hversu seint hann grípur til afsagnar.  Ég var reyndar þeirrar skoðunnar þegar rætt var um hrókeringar í ríkisstjórninni að Samfylkingin hefði ekki átt að skipta Björgvin og Þórunni út heldur hefði Ingibjörg Sólrún átt að víkja vegna ótrúlegrar pólitískrar vanhæfni í þessari ríkisstjórn - frá upphafi. 

Hvað um það Björgvin G sagði af sér í morgun og er maður að meiri, en hann gerði meira.  Hann hóf siðbótina á ný, siðbótina sem Sigríður Ingibjörg Ingadóttir varaformaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hóf þegar hún sagði af sér úr bankaráði Seðlabankans í október sl.  Vissulega hefði siðbótin mátt halda áfram frá þeim tímapunkti, en góðvild, þolinmæði og trú á "heildindi" og "samstarfsvilja" íhaldsins virðast hafa truflað samfylkingarfólk í þeirri tiltekt.  En nú er siðbótin hafin á ný, loksins, með því að setja af forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins.  Tónninn sem Björgvin G sló þegar hann tilkynnti afsögn sína í morgun var líka sá að siðbótin ætti að halda áfram.  Hann viðurkenndi að ríkisstjórninni hefði mistekist að halda tengslum og trúverðugleika.  Hann nánast viðurkenndi að allar raunhæfar aðgerðir til að bæta efnahagsástandið á Íslandi strönduðu á einu atriði - "samstarfsóhæfni" íhaldsins.  Enda hefur komið í ljós þegar fréttamiðlar ná sambandi við stuttbuxnadeild íhaldsins að þar skilur enginn neitt í neinu.  Á þeim bænum spyr fólk bara " hvað er verið að rugga þjóðarskútunni núna þegar við þurfum á styrkri stjórn að halda?"  Þar glittir í velþekkt syndrome frá fjórða áratug síðustu aldar, ekki nema von, Hannes Hólmsteinn Gissurarson einkavinur og hugmyndafræðingur fyrrverandi forsætisráðherra hefur kennt þessu fólki í stjórnmálaskóla sjálfstæðisflokksins.

Á morgun, mánudag, væri óskaplega notalegt að sjá alla bankastjórn Seðlabankans rekna frá störfum með þeirri skömm sem hæfði og stjórn sama banka setta af.  Í framhaldi af því á auðvitað að gefa fjármálaráðherra kost á því að segja af sér - setja hann af ef ekki vill betur - og í framhaldi af því reka Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu.  Miðað við fréttir af innherjaviðskiptum hans væri líklega rétt að stinga því að efnahagsbrotadeildinni að setja Baldur í gæsluvarðhald meðan viðskipti hans með Landsbankahlutabréfin væru skoðuð til hlýtar.  Það væri kannski grátbroslegt að sjá efnahagsbrotadeildina gera húsleit í fjármálaráðuneytinu, á skrifstofu ráðuneytisstjóra, en líklega væri það lýsandi dæmi um spillinguna sem þrífst meðal embættismanna sem ráðnir hafa verið vegna flokkskírteina sinna í sjálfstæðisflokknum og framsóknarflokknum undanfarna tvo áratugi.  Í það minnsta njóta téðir embættismenn mjög takmarkaðrar virðingar í samfélaginu vegna þessara augljósu tengsla þeirra við b og d.  Og meðan ekki er hreinsað til meðal þessara embættismanna og gegnsæju ráðningarferli í æðstu embætti landsins komið á, sitja hinir embættismennirnir sem saklausir eru af spillingu og eru ekki ofurseldir íhaldinu og framsókn undir dylgjum sem þeir eiga ekki skilið.

Hvað um það, Björgvin G hóf siðbótina á ný í dag og á þakkir skildar fyrir það.  Hann ýtti á undan sér vanhæfri stjórn FME og vanhæfum forstjóra.  Vanhæfu fólki vegna þess að þetta var fólkið sem hafði gefið bönkunum heilbrigðisvottorð opinberlega og þanprófað bankakerfið og töldu ekki ástæðu til að grípa inn í.  Kannski skorti lagaheimildir til að gera eitthvað í málunum og líklega var hroki og græðgi fjármálakerfisins af þeim toga að regluverkið leyfði ekki þessu fólki hjá FME að gera nokkurn skapaðan hlut nema að eiga á hættu stöðugar málsóknir frá bankafólkinu fífldjarfa.  En eftir á að hyggja brugðust þau trausti samfélagsins og því rétt að setja stjórn og forstjóra FME af. 

Björgvin minn kæri, þakka þér fyrir heildindin.  LIFI BYLTINGIN


Höfuðborgarsvæðið nær víðar en 101 Reykjavík

Það er rétt að minna Samfylkingarfélaga mína um landið sem telja að 101 Reykjavík sé höfuðborgarsvæðið á að það hugtak nær yfir töluvert stærra svæði.  Reyndar er það líklega rétt hjá þeim að spillingin á Íslandi er mest í áðurnefndu póstnúmeri en þá ber líka að minna þá á að spillingin grasserar þar í skjóli Samfylkingar í ríkisstjórn. 

Það eru því mikil vonbrigði að heyra um ótrúlega þolinmæði formanna Samfylkingarfélaga út á landsbyggðinni.  Nú þegar við erum búin að bíða í ríflega eitthundrað daga eftir aðgerðum vegna bankahrunsins þá eigum við að bíða lengur.  Við eigum að sýna Ingibjörgu Sólrúnu meiri biðlund vitandi um yfirgang Sjálfstæðisflokksins í samstarfinu og hún ræður ekki við eitt eða neitt.  ISG gerði afdrífarík mistök að stíga ekki strax til hliðar þegar hún veiktist því íhaldið hefur nýtt sér veikindi hennar og teygt tímann til að krafla sönnunargögnunum um misferlið undan.  ISG virðist meira að segja hafa samþykkt að gera ekki neitt fyrr en eftir landsfund Sjallans.

Og nú bíðum við enn.  Við biðum alla síðustu viku eftir að ISG kæmi til landsins og nú verður allt sett á bið vegna veikinda Geirs.  Það þykir líklega sjálfssögð tillitssemi við samstarfsflokkinn.

En nú er nóg komið af bið.  Það ber að slíta ríkisstjórninni strax því rökin um að landið þoli ekki stjórnarkreppu virka ekki lengur.  Það hefur ekkert verið gert í rúmlega eitthundrað daga og Samfylkingin hefur algerlega brugðist í þessu stjórnarsamstarfi.  Það mun ekkert frekar gerast með íhaldið í stjórn.  Samfylkingarfólkið í ríkisstjórnarsamstarfinu hefur hvað eftir annað fengið tækifæri og tímamót til að sýna hvað í þeim býr en misst af þeim öllum.  Ábyrgðin er Ingibjargar Sólrúnar og henni ber því að taka pólitíska ábyrgð og víkja strax.

LIFI BYLTINGIN


mbl.is Meiri biðlund á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband