Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.1.2009 | 13:01
Nýja ríkisstjórn þrátt fyrir veikindi ISG og GHH
Það er leitt að heyra fréttir af Geir H. Haarde. Hins vegar eiga þær ekki að breyta neinu um stjórnarslit og nýja ríkisstjórn fram að kosningum 9. maí.
Ég er þeirrar skoðunar að ef þau eru bæði að fást við erfið veikindi Ingibjörg og Geir þá eiga þau bæði að víkja strax og hleypa fullfrísku fólki að til að stýra björgunarleiðangrinum mikilvæga. Það gengur ekki að halda þjóðinni í gíslingu þeirra tveggja. Eins og er lítur þessi björgunarleiðangur út eins og ekkert skipti þjóðina máli annað en heilsa Geirs og Ingibjargar. Heilsa þeirra er mikilvæg en málefni Íslands alls eru einnig mikilvæg - þau eiga að hugsa um sig, aðrir geta tekið við björgunarleiðangrinum. Það fer þá kannski eitthvað að gerast.
23.1.2009 | 11:33
Siðbót á Íslandi
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur (sú sem fékk viðvörun frá ráðherra) gæti verið eitt besta vopn í siðbót í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Hún virðist vera fær um að stýra og halda utan um þá umræðu og vinnu sem þarf að fara fram í heilbrigðismálum á þann hátt að við gætum borið höfuðið hátt.
Það er orðið bráðnauðsynlegt að koma umræðunni um heilbrigðismál þjóðarinnar úr höndum fólks sem er fyrst og fremst að gæta eigin aukaþóknanna og geta ekki horft yfir allt sviðið með opnum huga.
Stóra spurningin er auðvitað sú hvort við höfum kjark til að gera Sigurbjörgu að ráðherra heilbrigðismála í samstjórn Samfylkingar og VG eftir kosningar í maí, jafnvel þó hún væri hvergi á lista. Þannig mætti auðvitað fara að með mörg fagráðuneytanna að fá fagfólk til að stýra þeim þó 2-4 stjórnmálamenn settust í önnur. Með þessu móti gæti myndast eðlilegt samband milli þingsins og framkvæmdavaldsins.
Við gætum jafnvel slegið tvær flugur í einu höggi og ráðið fjarbýling Sigurbjargar, Robert Wade, sem seðlabankastjóra. En þá þurfum við fyrst að losa okkur við hið óhæfa þríeyki sem nú trónir á þar á toppi. Merkilegt finnst mér þó hversu næstráðendur í bankanum virðast algerlega undir hælnum á formanni bankastjórnarinnar.
23.1.2009 | 02:32
Er að fæðast siðbót?
Ég er sammála Jóni Steinari sem skrifaði athugasemd hjá mér í gær að það þarf að aðskilja þing og framkvæmdavald. Það er þó ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki heyra á slíkt minnst en þeir eru búnir að byggja upp í langan tíma mikið flokksræði, svo mikið að það nálgast flokksræðið í gömlu Sovétríkjunum. Og siðbót er orð sem hið spillta íhald skilur ekki.
Ég var aftur á móti að vona að Samfylkingarþingmennirnir og ráðherrar væru örlítið upplýstari og nær venjulegu fólki en íhaldsliðið. Og ég ætla að halda áfram að vona. Þó svo að félagi Ingibjörg Sólrún hafi talað í kvöld eins og hún ætlaði að hana á íhaldinu eins og hundur á roði fram á vor þá trúi ég ekki öðru en að þingmenn og aðrir ráðherrar Samfylkingar hafi döngun í sér til að losa okkur úr þessari vonlausu stöðu, að Davíð Oddsson og Baldur Guðlaugsson sitji áfram ábyrgðarlausir í sínum mjúku flauelsstólum í skjóli Samfylkingarinnar.
Mín trú er sú að eftir að hafa heyrt viðtöl við Steinunni Valdísi og Helga Hjörvar í kvöld að dagar íhaldsspillingarinnar í stjórnarráðinu séu brátt taldir. Það er auðvitað með ólíkindum hversu þolinmóð þau og fleiri innan þingflokksins hafa verið gagnvart íhaldinu. Og ekki trúi ég að ráðherrum Samfylkingar líði betur í þessu samstarfi við frekju og dekurliðið. En þau fá prik fyrir þolinmæði og aumingjagæsku.
En siðbótin verður að fara fram hið fyrsta og ekki bara í stjórnarráðinu, þinginu, meðal embættismanna eða í ríkisbönkunum. Nei við verðum að hreinsa til í stjórnum lífeyrissjóðanna, þar sem svokallaðir verkalýðsforingjar hafa misfarið með lífeyri Íslendinga og látið atvinnurekendum eftir að vasast með þeim í stjórnum lífeyrissjóðanna. Við verðum að henda framkvæmdastjórum lífeyrissjóðana á dyr. Þetta ofurlaunaða fólk hefur tapað milljörðum af því fé sem þeim var treyst fyrir og ætlast til að fá að sitja áfram.
Meira um það síðar.
22.1.2009 | 00:00
Frábær fundur Samfylkingarfélagsins í Reykjavík
Var á fundinum áðan og upplifði Samfylkinguna. Frábær upplifun að finna að Flokkurinn er einhuga um að slíta þessu vonlausa samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ég lagði til við Lúðvík frænda minn Bergvinsson að hann færi beint af fundinum og boðaði þingflokksfund og á á dagskrá ætti að vera að hætta stuðningi við ríkisstjórnina. Ég lagði reyndar líka til að skilyrði fyrir því að Samfylkingin tæki að sér starfsstjórn yrði að henda bankastjórn Seðlabankans kl. 08:00 í fyrramálið og á sama tíma ætti að hreinsa til í Fjármálaeftirlitinu. Að auki ætti setja alla ráðuneytisstjóra af.
Hrannar B Arnarson sagði það vera populisma að ráðast gegn embættismannakerfinu. Það má vel vera en það væri táknræn aðgerð því allir þessir ráðuneytisstjórar hafa verið ráðnir vegna flokkskírteinis ekki hæfileika. Það er reyndar mjög líklegt að flestir þeirra séu ágætlega hæfir og gætu með góðu móti sótt aftur um starfið þegar það væri auglýst. Það væri þá hægt að meta hæfileika þeirra. Fyrr njóta þeir ekki trausts.
En talandi um þingflokkinn þá er ekki líklegt að þingmennirnir taki frumkvæðið. Þýlyndið er þannig. En maður getur vonað.
Samþykktu ályktun um stjórnarslit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2009 | 14:21
Óhæfur saksóknari efnahagsbrota
Saksóknari sem ekki getur orðað ákæru til Hæstaréttar nógu skýrt til að ljóst sé hvað ákært er fyrir er auðvitað óhæfur saksóknari efnahagsbrota. Enda hefur enginn þeirra sem grunaðir eru um að hafa rænt íslensku þjóðina verið kallaðir til yfirheyrslu hvað þá að þeir séu settir í gæsluvarðhald meðan rannsókn fer fram. Nei þeir fá ráðrúm til að tína saman brotin sín og hirða upp sitt illa fengna fé.
Nú eru liðnir ríflega 100 dagar frá því að ljóst varð hvers kyns fjárglæframennska var stunduð í skjóli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits með fulltingi forsætis- og fjármálaráðherra og með velþóknun utanríkisráðherra og allir þeir sem fóru með stjórn fjárgllæfrafyrirtækjanna hafa haft gott ráðrúm til að koma gögnum undan og fela slóðina. Og saksóknari efnahagsbrota einbeitir sér að stílæfingum sem hann fær Hæstarétt til að fara yfir.
Það er ljóst að saksóknari efnahagsbrota er jafnóhæfur og margir aðrir opinberir embættismenn sem hafa fengið ráðningu undanfarinn áratug út á flokksskírteini í Sjálfsstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum.
Þetta er það sem Samfylkingin lofaði að berjast gegn, en því miður gekk í björg einkavinanna í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Formaður Samfylkingarinnar gerði sér meira að segja sérstaka ferð í Kastljós Sjónvarpsins til að verja gjörðir fjármálaráðherra. Og Jóhanna Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján Möller, Björgvin G. Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson sitja hljóð og stillt.
21.1.2009 | 00:20
Þetta er orðið gott Ingibjörg
Nú er kominn tími til að Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna, Kristján, Björgvin og Þórunn taki af skarið og segi þessu ríkisstjórnarsamstarfi lokið. Þetta samstarf er orðið skrípaleikur og ábyrgu fólki ber að grípa inn í. Ef ráðherrum Samfylkingar finnst ekki nóg komið þá verður þingflokkurinn að taka völdin - að öðrum kosti eru þau lyddur og ekki nokkur leið að styðja það fólk til starfa áfram.
Kannski ætti þjóðin að fara túlka stjórnarskrána og óska eftir því við forsetann að leysa þessa ríkisstjórn frá völdum. Til þrautavara munum við í Reykjavíkurfélagi Samfylkingarinnar taka fram fyrir hendurnar á þeim sem ekki þora.
Það er mögnuð upplifun að standa á Austurvelli og vera þátttakandi í mótmælum á Íslandi, mótmælum sem fólk af öllum stærðum og gerðum tekur þátt í, mótmælum þar sem ÞJÓÐIN tekur þátt í. Og nú þýðir ekki að segja með hroka og stælum að þetta sé ekki þjóðin, því þarna er íslenska þjóðin að segja ráðherrum Íslands að þeir séu ekki starfi sínu vaxnir og þeim beri að víkja. Það er ekkert persónulegt við það.
Ósvífni forseta þingsins og forsætisráðherra tekur út yfir allan þjófabálk. Hvernig datt þeim í hug að halda að þeir gætu hafið þingstörf á þessum tímum eins og ekkert hefði í skorist. Hvar duttu þeir úr sambandi?
Mótmæli halda áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2009 | 18:02
Þýlyndar liðleskjur á þingi?
Það er rétt sem Helga Vala segir - þjóðin vill ekki þessa ríkisstjórn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður hvort sem henni líkar betur eða verr að sætta sig við það að þjóðin talar hvort sem ISG vill hlusta eða ekki.
Það er náttúrulega með þvílíkum ólíkindum að formaður flokks jafnaðarmanna skuli koma fram við fólk með sama hroka og gikkshætti og núverandi seðlabankastjóri hefur gert gegnum tíðina. Það er ansi hart að sitja uppi með slíkan formann í Samfylkingunni.
Það er líka með ólíkindum að börn séu beitt piparúða og þau sett í handjárn á sama tíma og liðleskjum á alþingi finnst við hæfi að ræða um að setja áfengissölu í matvöruverslanir.
Þjóðin var í Alþingisgarðinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 17:36
Kjósa núna Ingibjörg Sólrún
Það eru ýmsar spurningar sem maður fær með morgunkaffinu. Nokkrar þeirra eru endurteknar hér, sov sem, "Er ekki kominn tími til að þingmenn Samfylkingar reki af sér slyðruorðið og segi hingað og ekki lengra?" "Er ekki kominn tími til að ráðherrar Samfylkingar taki ákvörðun um að breyta þessari óstjórn í starfsstjórn fram að kosningum?" "Er ekki kominn tími til að kjósa?"
Til þess að enginn þurfi að velkjast í vafa þá upplýsist það hér að ég hef verið og er eindreginn stuðningsmaður Samfylkingarinnar. En Samfylkingarfólk sem ég umgengst vill undantekningarlaust fá að kjósa og endurnýja í þeim hópi sem fer með umboð þess í landsstjórninni. Og er það nokkur furða þar sem Samfylkingin virkar út í frá sem hjálpartæki fyrir Sjálfsstæðisflokkinn, sá flokkur er algerlega þrotinn krafti og nýtur einskis trausts. Samfylkingin virðist út í frá ætla að sitja með Sjálfstæðisflokknum á öllum upplýsingum um raunverulegt ástand efnahagsmála. Formaður Samfylkingarinnar hefur orðið uppvís að því að leyna samráðherra sína upplýsingum ef marka má fréttir fjölmiðla.
Ég er því þeirrar skoðunnar að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, eigi að sýna raunverulega pólitíska ábyrgð og ganga út úr ríkisstjórninni. Aðrir ráðherrar gætu setið áfram í starfsstjórn fram að kosningum. Ingibjörg Sólrún gæti með þessu náð fram ýmsum markmiðum svo sem eins og að undirbúa kosningar, hvíla sig eftir erfið veikindi og síðast en ekki síst með þessu myndi hún sýna að Samfylkingunni er treystandi pólitískt.
Margir fengu piparúða á sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 09:52
Aumingja Ólafur
Það hlýtur að vera erfiður kross að bera að hafa sankað að sér svo stórum hluta af fjármunum íslensku þjóðarinnar að maður sé persónulega fær um að ganga í ábyrgð fyrir og lána arabískum olíufursta til að kaupa banka.
Íslenskur maður sem hefur efnast svo mikið að íslenskir fjölmiðlar sjá sér ekki fært að gera athugasemd við það þó hann geri vini sínum þennan greiða í gegnum skattaparadís - án þess að hagnast á því sjálfur.
Þetta er upplýst í kjölfarið á því að aumingja Ólafur fer fram á að fá útgreiddar tæplega tvö hundruð milljónir króna í gengismun frá bankanum sem hann keyrði í þrot.
Svo finnst aumingja Ólafi það ósanngjarnt að vera talinn fjárglæframaður og það eftir að upplýst hefur verið um lán til hans frá Kaupþingi án þess að hann beri neina áhættu sjálfur.
Það er eitthvað sem ekki gengur upp.
Milljarðalán án áhættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2009 | 19:47
Framsýnn Karl Marx
Það er við hæfi finnst mér að upphafsfærslan á þessari síðu minni sé úr skrifum Karls Marx frá árinu 1867, en hún hljóðar svo:
"Owners of capital will stimulate working class to buy more and more
of expensive goods, houses and technology, pushing them to take more
and more expensive credits, until their debt becomes unbearable.
The unpaid debt will lead to bankruptcy of banks, which will have to be nationalized, and State will have to take the road which will
eventually lead to communism."
Karl Marx, 1867
Það verður því áhugavert að vita hvort hvort seinasti hluti textans gangi eftir einnig, þe að við munum taka stefnuna á kommúnisma í framhaldi af örstuttu "siðrofi" íslenskra fjárglæframanna.